Reyklosunarbúnaður bygginga

reykjarmyndun01

Reyklosun er mikilvæg. Það er mikilvægt að losna sem fyrst við eyðandi orku og reyk út úr brennandi byggingu.

Reykjarmyndun

Í öllum bruna myndast reykur, efni í reyk eru mismunandi eftir því hvað brennur. Þegar viður brennur er yfirleitt hægt að losna við reykinn með náttúrulegri reykræsingu en stærð opa í byggingu ræður þar miklu.  Við bruna í plastefnum í rými með takmarkaða útloftun myndast mikill reykur sem eykst með aukinni loftræsingu. Við aukna notkun á plasti í byggingum fylgir aukinn reykur og eiturgufur í bruna.  Með prófunum hefur verið sýnt fram á að tré gefur meiri reyk frá sér við glóðarbruna en við bruna með loga. Sum plastefni gefa hins vegar frá sér meiri reyk við bruna með loga.

Prófun fer þannig fram að einu g. af brennanlegu efni er komið fyrir 1 m3 rými. Ljósgeisli er notaður til að mæla þéttleika reyksins í % á lengdarmetra (ljósísog, DO).

Reykmyndun í nokkrum efnum með loga:

  • Spónaplata: 0,37
  • Pappír: 0,22
  • Hart PVC: 1,70
  • Hart pólyúreþan: 4,20
  • Gipsplata: 0,046

Af þessu sést að gips er ákjósanlegt í innanhússklæðninga, og ætti að nota innan íbúða og á mannmörgum stöðum. Það logar ekki og gefur frá sér lítið af reyk og jafnframt lítið af eiturefnum. Önnur efni eins og eldvarðar spónaplötur sem loga ekki gefa hins vegar frá sér eiturefni í bruna.

Reykfyllingartími ræðst að mestu leyti af brunaálagi, brunahraða og rúmmáli rýmis og skiptir lofthæðin máli í því sambandi. Það getur verið nauðsynlegt að nota öflugan sjálfvirkan reyklosunarbúnað í iðnaðarhúsum, á mannmörgum stöðum eða viðkvæmum. Flóttaleiðir eiga að vera nánast reykfríar á meðan fólk forðar sér út.

Búnaður

Aðferðir til reyklosunar eru annars vegar náttúrleg og hins vegar vélræn. Hvor af meginaðferðunum er notuð fer eftir aðstæðum. Reyklúgur, reyksugur, loftræsikerfi, auðbrennanlegar þakplötur og reyktjöld eru að verða algengur búnaður til reyklosunar og stjónunar á henni.  Vegna þess hve reyklosun er veigamikill þáttur í slökkvistarfi er ákaflega brýnt að nota þann búnað sem er til staðar ef eldur kemur upp.

Hér verður gerð stutt grein fyrir helstu tegundum reykræsibúnaðar í húsum.

Reyktjöld og reykskermar

reykjarmyndun02

Reyktjald er búnaður sem festur er í loft og á að falla niður við boð frá viðvörunarkerfi. Búnaðurinn sem á að vera úr tregbrennanlegu efni, nær frá lofti og niður í einhverja fyrirfram ákveðna hæð frá gólfi. Reyktjald á að koma í veg fyrir að reykur berist um alla bygginguna. Reykskermur er fastur búnaður sem gegnir sama hlutverki og reyktjaldið en getur verið úr efnum  eins og steinsteypu, hitaþolnu gleri eða stáli.

Auðbrennanlegar þakplötur

Auðbrennanlegar þakplötur eru fyrs og fremst ætlaðar til eignaverndar með því að minnka álagið á burðarvirki byggingarinnar. Þessi búnaður er nær eingöngu úr plastefnum sem brenna í sundur og opnast áður en hitastigið í reyklagi inni í byggingunni verður of hátt. Þakplöturnar brenna yfirleitt við 200°C-300°C. Þær eiga að vera 5% af gólfflatarmáli og dreifast jafnt á þakið.

Reyklúgur

reykjarmyndun03

Reyklúgur eru lúgur eða gluggar sem opnast við boð frá viðvörunarkerfi eða eru tengdar við bræðivar. Algengast er að þær séu í þaki bygginga en geta einnig verið ofarlega í veggjum.  Reyklúgur á bræðivari opnast með hjálp frá pumpum þegar bræðivarið bráðnar við ákveðið hitastig. Eftir það er ekki hægt að hafa stjórn á opnuninni nema með handafli utanfrá.  Reyklúgur sem tengdar eru við kerfi opnast við skipun frá kerfinu. Þessar lúgur eru oftast mótordrifnar og á að vera hægt að stjórna þeim handvirkt eftir að kerfið hefur verið endurstillt. Búnaðurinn á að vera tengdur við varaaflgjafa. Þá er einnig til gasknúinn opnunarbúnaður sem yfirleitt er bæði handvirkur og  tengdur við reykskynjara.

Heildarflatarmál reyklúga er yfirleitt mun minna en auðbrennanlegrar þakklæðningar.

Athugið: Reyklúgur skulu vera viðurkenndar af Brunamálastofnun.

Reyksugur

Reyksugur (blásarar) eru helst notaðir í gluggalausum rýmum þar sem brunaálag er mikið, rýmið stórt eða lyfta þarf reyklagi þann útreiknaða tíma sem fólk þarf að hafa til að forða sér út. Ef allir þessir þættir eru til staðar þurfa slíkar sugur að vera mjög öflugar. Þar sem fleiri en ein suga eru til staðar er hægt að stjórna því hver reyklosar, er þá miðað við reyk- eða brunahólfun rýmis eða byggingar. Viðvörunarkerfi gæti tekið þetta hlutverk að sér þar til slökkvilið ákveður að taka stjórnina á reyklosuninni í sínar hendur.

Loftræsikerfi

Loftræsikerfi getur reykræst gluggalaus rými ef gert er ráð fyrir þeim möguleika í hönnun kerfisins. Hægt er að láta viðvörunarkerfi stjórna útsogi úr rýminu sem reyklosa á, sjá rýminu fyrir mátulega miklu aðlofti og jafnframt sjá fyrir auknu aðstreymi lofts til nærliggjandi rýma til að hefta útbreiðslu reyks. Slökkviliðið tekur yfirleitt að sér stjórnun á reyklosuninni þegar það kemur á staðinn.  Til að ná viðunandi reyklosun þarf alltaf að sjá rými sem á að reyklosa fyrir mátulegu aðstreymi lofts undir reyklaginu.

Kröfur um reyklosun

reykjarmyndun04

Gluggi á hverri hæð. Dæmi um sjálfvirka og handvirka opnun.

Vegna þess hve hús eru mismunandi eru kröfur til reyklosunar æði margvíslegar.  En einnig ráða þættir eins og tilvist slökkvikerfa miklu um þær kröfur sem gerðar eru til reyklosunar.  Hér eru nokkur dæmi um lágmarkskröfur er varða sjálfvikan reyklosunarbúnað.

  • Bílageymslur >100 m2 eiga að hafa op til reyklosunar
  • Stigahús, gluggi á hverri hæð
  • Gluggalaust stigahús, sjálfvirk reyklúga
  • Samkomuhús >200 m2, gluggalausir salir
  • Bílageymslur >600 m2, vélræn ef gólf er undir yfirborði jarðar og ekki er vatnsúðakerfi
  • Iðnaður 200-1000 m2 viðurk. reyklosun eða R60 burðarvirki (auðbr.)
  • Iðnaður > 1000 m2 viðurk. reyklosun
  • Kjallarar 0.5% eða 0.25m2

Yfirleitt er gert ráð fyrir reyklosun í brunahönnuðum byggingum.

Kjallarar

Í kjöllurum og öðrum neðanjarðarrýmum eiga að vera gluggar eða annar búnaður til að reyklosunar. Ef um geymsluhúsnæði er að ræða eiga opin að vera a.m.k. 0,50% af gólffleti. Stærð hvers ops á að vera a.m.k. 0,25m2. Ef önnur notkun er á rýminu ákveður slökkviliðsstjóri eða fulltrúi hans hver lágmarksstærð opanna á að vera.

Ferskt loft undir reyklagið

Nauðsynlegt er að hafa stjórn á reyklosuninni með því að hleypa fersku lofti inn í bygginguna undir reyklaginu, í réttu hlutfalli við reykopin, í brunahönnuðum byggingum er oft farið fram á að þessi stjórnun á aðstreymi fersks lofts sé sjálfvirk.  Þetta er m.a. gert til að koma í veg fyrir að fólk lokist inni vegna þrýstingsmunar sem getur gert illmögulegt að opna hurðir milli rýma. Í sumum tilfellum opnast reyklúgur fyrst þar sem hitinn er mestur og síðan koll af kolli. Handstýrð neyðaropnun er á sumum lúgum, þá oftast sem búnaður til vara.

Ekki hindra reyklosun

Ekki má byrgja fyrir reyklosunarop, hvort heldur um er að ræða auðbrennanlegar plötur eða sjálfvirkar lúgur. Ekki má heldur stafla vörum upp þannig að þær komi í veg fyrir eðlilegt flæði reyksins út úr byggingunni.

Milligólf mega ekki takmarka reyklosunina. Prófun á sjálfvirkum reyklosunarbúnaði tengdum reykskynjara (kerfi) skal fara fram a.m.k. einu sinni á ári um leið og brunaviðvörunarkerfið er prófað enda telst búnaðurinn til tengds búnaðar.

Einnig skal annar reyklosunarbúnaður yfirfarinn.

Athugið: Leita skal álits kunnugra varðandi val á auðbrennanlegum plötum.


This entry was posted in Brunavarnir bygginga and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply