Reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit

Um ábyrgð eiganda

Í 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 segir:

Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og taki mið af þeirri starfsemi sem í mannvirkinu fer á hverjum tíma.

Eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eldvarnaeftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunamál, byggingarmál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.

Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í því, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarnefndar og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi. Áður en byggingarnefnd veitir samþykki sitt skal hún leita álits slökkviliðsstjóra.

Um eigið eftirlit

Í reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði nr. 200/1994 segir m.a:

Gr.1.1 “Eigið efrirlit er daglegt og reglubundið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og fyrir eigið fé. Hér er átt við eldvarnaeftirlit sem eigendur og forráðamenn eða starfsmenn þeirra annast eða aðilar á þeirra vegum, t.d. þjónustufyrirtæki eða sjálfstætt starfandi eldvarnaeftirlitsmenn.”

Gr.2.1 “Eigandi húsnæðis er ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál.”

“Forráðamanni atvinnuhúsnæðis er skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í húsnæðinu fer fram á hverjum tíma.”

Gr. 3.1 “Eiganda eða forráðamanni ber að fela ákveðnum og ábyrgum starfsmanni það verkefni að hafa yfirumsjón með brunavörnum hússins og þjálfun starfsmanna varðandi innra eftirlit, fyrstu viðbrögð við eldi og slökkvistarf. Æskilegt er að þessi maður sé einn af eigendum eða stjórnendum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

Brunaæfingar

Í reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit  gr. 3.3 segir að í atvinnuhúsnæði þar sem 30 manns starfa eða dveljast skuli a.m.k. einu sinni á ári halda brunaæfingu undir leiðsögn viðurkennds aðila.

This entry was posted in Innra eldvarnaeftirlit and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply