Handslökkvibúnaður

slokkvitaeki

Staðsetning

Handslökkvitæki á að hengja á vegg á áberandi eða merktum stað, stærð tækja og tegund slökkviefnis fer eftir áhættu. t.a.m. ætti kolsýrutæki (CO2) að vera staðsett nærri rafmagnstöflu og öflugum raftækjum en almenna reglan er að handslökkvitæki séu staðsett nærri útgöngudyrum og við brunaslöngur. Eldvanateppi eiga að vera í eða nærri eldhúsum og þar sem unnið er með eldfim efni. Eldvarnateppi má nota að breiða yfir hluti sem kviknað hefur í, til að hefta útbreiðslu elds, t.a.m. frá kertaskreytingu eða sjónvarpi. Til að slökkva glóð í föstum efnum þarf að nota vatn.

Fyrstu viðbrögð

Fyrstu viðbrögð í eldsvoða skulu ávallt vera þau að vara fólk við eldinum, samtímis skal láta 112 vita.

Algengasti slökkvibúnaður:

  • Duft
  • vatn
  • létvatn
  • kolsýra
  • eldvarnateppi
  • brunaslöngur

Slökkvigildi

Slökkvigildi handslökkvitækis á að standa á tækinu. Brunaflokkurinn er sýndur með bókstaf en stærð bruna í slökkvieiningum með tölustaf.

  • A er bruni í föstum, yfirleitt lífrænum efnum, þar sem bruni myndar oftast glóð.
  • B er bruni í vökvum eða föstu efni sem bráðnar.
  • C er bruni í gasi
  • D er bruni í málmum

Forsendur bruna

Þrennt þarf að vera til staðar til að bruni geti átt sér stað:

  • brennanlegt efni
  • súrefni
  • nægjanlegur hiti

Slökkvitækni

Slökkvitækni byggist á því að fjarlæga einn eða fleirri þessara þátta.

Þetta er gert með því að;

  • fjarlægja eða koma í veg fyrir aðstreymi brennanlegs efnis
  • koma í veg fyrir aðstreymi súrefnis
  • kæla eldsneytið niður fyrir íkveikjuhitastig

Notkun slökkvitækis

Byrjað er á að fjarlægja innsigli (sjá leiðbeiningar á tækinu).

Ágæt regla er að hefja slökkvistarf í um þriggja metra fjarlægð frá eldinum, það getur til að mynda komið í veg fyrir dreifingu á logandi vökva. Að öðru leiti á að fara eftir leiðbeiningum á tækinu. Beina skal slökkviefninu að rótum eldsins og færa sig síðan nær ef kostur er. Ef næst að slökkva eldinn áður en efnið klárast, þá á að geyma restina af slökkviefninu til öryggis, ef eldurinn skyldi kvikna á ný.

Athugið: Munið eftir að slökkva glæður í föstum efnum (timbur o.fl.) með vatni.

Val á slökkvitækjum

Það fer eftir áhættu; stærð rýmis og starfsemi hvaða tegund og stærð slökkvitækis á að velja. Þegar valin eru stór slökkvitæki er ráðlegt að koma fyrir viðbótartækjum með lágu slökkvigildi gegn minni brunum.

Mismunandi eiginleikar slökkvitækja gera að verkum að ein tegund tækja hentar yfirleitt betur en önnur við tilteknar aðstæður.

Þar sem froðu- og dufttæki eru á sama stað verður að gæta þess að þau séu samhæfð, það er að þau myndi ekki óvirk efnasambönd sín í milli.

Seljendur tækjanna eiga að leiðbeina kaupendum varðandi þessi atriði.

Viðhald og eftirlit með handslökkvibúnaði

Sjá rit Brunamálastofnunar: “Reglur um eftirlit og viðhald handslökkvitækja“.

Viðurkenndur þjónustuaðili á að yfirfara tækin árlega.

Mánaðarlegt eftirlit

Við mánaðarlegt eftirlit á eigandi/umráðamaður að líta eftir því að:

  • Slökkvitækin séu á sínum stað
  • Innsigli séu órofin
  • Þrýstimælar sýni réttan þrýsting (grænt svæði)
  • Aðgangur að tækjunum sé óheftur
  • Merkingar séu til staðar og óskaddaðar

Slöngukefli

Slöngukefli er brunaslanga upprúlluð á kefli sem hengt er á vegg.

Í 164. gr. byggingarreglugerðar er kveðið á um vatnsrennsli, þrýsting o.fl.

Reglugerð um brunaslöngur

Í byggingarreglugerð er þess krafist að brunaslöngur séu í:

  • fjölbýlishúsum fyrir aldraða
  • skólum og dagvistunarstofnunum fyrir fleir en 50 manns
  • samkomuhúsum fyrir fleiri en 150 manns
  • við leiksvið stærri en 100 m2
  • verslunarhúsnæði stærra en 500 m2
  • skrifstofuhúsnæði stærra en 500 m2
  • hótel dvalar- og heimavistir meira en 20 svefnrými
  • iðnaðarhús stærri en 200 m2
  • bílageymslum stærri en 100 m2

Þjálfun í notkun handslökkvitækja

Þjálfað fólk á ekki að vera í vandræðum með að slökkva eld á byrjunarstigi. Á hinn bóginn geta slökkvitæki skapað falskt öryggi ef óþjálfað fólk á að nota þau.

  • Kennsla af þessu tagi er veitt á vegum flestra slökkviliða.
  • Á höfuðborgarsvæðinu býður LSOS upp á þjálfun og kennslu.
  • Hjá Eldstoðum starfa reyndir slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitsmenn sem annast slíka fræðslu. 
Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Brunatákn á teikningum

Um er að ræða tákn sem hafa verið notuð í Evrópu undanfarin ár en búast má við því að þeim verði skipt út fyrir önnur nýrri, hvenær það verður gert er ekki enn vitað en eldri táknin munu gilda áfram svo langt sem þau ná til að skilgreina verkfræðilegar úrlausnir.

Táknin og það sem þau standa fyrir eru:

  • A- efni, óbrennanleg byggingarefni.
  • B- efni, brennanleg byggingarefni

Eldnæm byggingarefni eru efni sem ekki komast í áðurnefnda flokka og á því ekki að nota þau í byggingar nema þau séu eldvarin á viðurkenndan hátt.

  • R er burðargeta í mínútum, t.d. R120.
  • E er heilleiki (þéttleiki) í mínútum, t.d. E60.
  • I er einangrun í mínútum, t.d. E30.
  • C er fyrir sjálfvirkan lokunarbúnað á hurðum og hlerum, t.d. EIC30.
  • S er fyrir reykþéttingar t.a.m. á hurðum, t.d. EIS60 (AEICS60).
  • M er fyrir byggingarhluta sem eiga að þola aflfræðilegt álag, t.d. högg.
  • W er einangunargildi gegn geislun.

Dæmi:

  • A-REI60 er eingöngu úr A- efnum.
  • A-REIM120 er eldvarnarveggur.
  • EI60 er algengur brunahólfandi veggur.
  • REI90 er algengur brunasamstæðuveggur.
  • EICS30 er algengustu brunahólfandi hurðirnar, t.d. að stigahúsum.
  • EICS60 er algeng hurð á milli  kjallara og stigahúsa.
leidbeiningar153br1

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

leidbeiningar153br1_b

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit

Um ábyrgð eiganda

Í 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 segir:

Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og taki mið af þeirri starfsemi sem í mannvirkinu fer á hverjum tíma.

Eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eldvarnaeftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunamál, byggingarmál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.

Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í því, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarnefndar og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi. Áður en byggingarnefnd veitir samþykki sitt skal hún leita álits slökkviliðsstjóra.

Um eigið eftirlit

Í reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði nr. 200/1994 segir m.a:

Gr.1.1 “Eigið efrirlit er daglegt og reglubundið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og fyrir eigið fé. Hér er átt við eldvarnaeftirlit sem eigendur og forráðamenn eða starfsmenn þeirra annast eða aðilar á þeirra vegum, t.d. þjónustufyrirtæki eða sjálfstætt starfandi eldvarnaeftirlitsmenn.”

Gr.2.1 “Eigandi húsnæðis er ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál.”

“Forráðamanni atvinnuhúsnæðis er skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í húsnæðinu fer fram á hverjum tíma.”

Gr. 3.1 “Eiganda eða forráðamanni ber að fela ákveðnum og ábyrgum starfsmanni það verkefni að hafa yfirumsjón með brunavörnum hússins og þjálfun starfsmanna varðandi innra eftirlit, fyrstu viðbrögð við eldi og slökkvistarf. Æskilegt er að þessi maður sé einn af eigendum eða stjórnendum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

Brunaæfingar

Í reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit  gr. 3.3 segir að í atvinnuhúsnæði þar sem 30 manns starfa eða dveljast skuli a.m.k. einu sinni á ári halda brunaæfingu undir leiðsögn viðurkennds aðila.

Birt undir flokknum Innra eldvarnaeftirlit | Tagged | Skrifið athugasemd

Atriðalisti eldvarna

Smelltu á skjalið til að sjá stærri útgáfu.

atridalisti_eldvarna1

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Flóttaleiðir

Flóttaleiðir skulu vera greiðfærar

Flóttaleiðir eiga að vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar. Þær eiga að tryggja það að fólk sem statt er í mannvirki, hafi nægan tíma til að koma sér út undir bert loft áður aðstæður verða hættulegar.

Útreikningar á leyfilegum fólksfjölda fer eftir notkun húsnæðis.

  • Í samkomusölum er t.a.m. reiknað með tveimur á fermetra og í verslunum einum á hverja þrjá fermetra.
  • Í brunahólfum allt að 150 m2 sem rúma innan við 50 manns gilda aðrar reglur en fyrir stærri og/eða fjölmennari rými.
  • Ekki er leyfilegt að nota flóttaleiðir til annars en umferðar. Þó má innrétta ganga til notkunar sem ekki eykur brunaálag að marki eða rýrir hæfni þeirra.
  • Flóttaleið má ekki liggja í gegnum aðra rekstrareiningu eða íbúð.
  • Rúllustigar og færibönd eru ekki flóttaleiðir.
  • Lyftur á ekki að nota til flótta úr eldsvoða, merkingar þar að lútandi skulu vera við lyftudyr.

Athugið: Bannað að nota lyftu í eldsvoða.

  • Í flóttaleiðum eiga klæðningar veggja og lofta að vera í flokki eitt (t.d. gips).
  • Gólfefni í flóttaleiðum eiga að vera tregbrennanleg og því í flokki G.
  • Fjarlægð að öruggum flóttaleiðum innan byggingar eða dyrum í útvegg má ekki vera meiri en 25 metrar.

Dyr og hurðir í flóttaleiðum

flottaleid_dyr_hurdir

Reglur kveða á um fjölda útganga, hámarks fjarlægðir að þeim, fyrirkomulag þeirra miðað við fólksfjölda og samanlagða breidd þeirra.

  • Breidd útganga á að vera í það minnsta 10 cm á hvern mann sem hún á að þjóna.
  • Brunahólf sem reiknað er fyrir fleiri en 600 á að hafa minnst þrjá útganga og brunahólf fyrir fleiri en 1000 minnst fjóra.
  • Dyr í flóttaleið eiga að vera fyrir a.m.k. 90 cm breiðar hurðir.
  • Hurðir eiga að opnast innanfrá án lykils eða sérstakra verkfæra, þar sem margir dvelja eða koma saman eiga þær að opnast í flóttaáttina.
  • Á vængjahurðum frá rýmum sem rúma 50 manns eða fleiri og gerð er krafa um snögga rýmingu, á að vera neyðaropnunarbúnaður (t.d. panikslá).
  • Að minnsta kosti tvennar 0,8 m. breiðar dyr eiga að vera til flótta fyrir búfé út úr gripahúsum.

Athugið: Véldrifnar hurðir og rennihurðir má ekki nota í flóttaleiðum nema á þeim sé búnaður sem opni þær við straumrof og við boð frá reykskynjara, eða þær séu opnanlegar með handafli í flóttaáttina. Hverfihurðir og álíka hurðir má ekki nota í flóttaleiðum.

Björgunarop

flottaleid_bjorgunarop

Í það minnsta eitt björgunarop á að vera fyrir hvern tug manna. Þeim má þó sleppa ef tveir óháðir útgangar til öruggs staðar utandyra eru út úr brunahólfi.

Björgunarop geta verið dyr, gluggar eða hlerar. Björgunaropum á að vera auðvelt að ljúka upp, á þeim skal vera öryggisbúnaður sem á að hindra að lítil börn geti opnað þau.

Það fer eftir gerð og notkun byggingar hvort eða hvaða kröfur eru gerðar varðandi björgunarbúnað við björgunaropin, það geta verið neyðarsvalir, neyðarstigar eða annar viðurkenndur búnaður.

  • Þar sem í það minnsta tvær viðurkenndar flóttaleiðir eru til staðar eru björgunaropin oftast nægjanlega stórir (til dæmis 70×80 cm.) opnanlegir gluggar án björgunarbúnaðar.
  • Ávallt skal vera greiður aðgangur að dyrum í flóttaleiðum.
  • Yfirfara skal opnunarbúnað hurða reglulega og prófa þær enn oftar.
  • Utan við dyr flóttaleiða kunna að vera hindranir sem þarf að fjarlægja, til dæmis snjór.

Athugið að vörur sem raðað er meðfram flóttaleiðum (til dæmis verslanir) verða að vera í öruggum rekkum svo þær valdi ekki hindrun í flóttaleið við hrun.

Reglugerð

Gr. 137.1  byggingarreglugerðar

Verði Eldur laus í mannvirki:

a) “Að þeir sem í mannvirkinu dveljast eða eru staddir þar komist fljótt   og hindrunarlaust út af eigin rammleik eða með aðstoð annarra.”

b) “Að öll húsaskipan og aðgengi fyrir björgunarmenn sé með þeim hætti að aðstaða til björgunar sé sem auðveldust, hvort sem er á mönnum, dýrum eða verðmætum.”

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Brunaviðvörunarkerfi

Prófanir, eftirlit og viðhald

Samning á að gera við viðurkenndan þjónustuaðila um reglulegar prófanir, eftirlit og viðhald á brunaviðvörunarkerfum og tengdum búnaði.

Í gr. 92.3. í byggingarreglugerð segir að reykskynjari og handslökkvitæki eiga að vera í öllum íbúðum, gildir þetta ákvæði þá einnig um fyrirtæki. Þannig á fólk að hafa rýmri tíma til að forða sér út eða slökkva eld á byrjunarstigi.

Í gistiheimilum með svefnrými fyrir allt að 10 manns eiga að vera a.m.k. heimilisskynjarar, fyrir 11-20 manns samtengdir reykskynjarar.

Rafhlöðuskynjara skal prófa vikulega og skipta um rafhlöðu ef með þarf, og eigi sjaldnar en á eins árs fresti.

Það verður æ algengar að brunaviðvörunarkerfin stjórni slökkvikerfum, reyktjöldum, loki brunahólfandi hurðum, opni reyklúgur, slökkvi á loftræsikerfum og ræsi reykblásara (reyksugur). Í sumum byggingum kveikja þau á raddstýrðum skilaboðum og leiðbeiningum.

Í gripahúsum ætti að vera reyksogskerfi að minnsta kosti í flokki C. Kerfið yrði tengt þannig að það hringi í síma þess sem sér um umhirðu skepnanna hverju sinni. Með því móti yrði hægt að grípa tímanlega til rýmingu gripahúsa og jafnvel slökkva eld á byrjunarstigi.

Stjórnstöð

brunavidvorunarkerfi

Við stjórnstöð brunaviðvörunarkerfis á að koma fyrir þjónustubók og yfirlitsmynd af byggingunni.

Í þjónustubókina á að skrá reglubundið eftirlit, þar sem skráð er og staðfest með undirskrift hvenær kerfið og tengdur búnaður var yfirfarinn. Einnig á að skrá þar öll boð sem kerfið sendir frá sér, hvort heldur um er að ræða eldboð eða bilun í kerfinu. Ekki má endurstilla kerfið fyrr en reykskynjarinn sem boðin sendi er fundinn.

Ef einangra (aftengja) þarf reykskynjara af einhverjum ástæðum, t.a.m. meðan lagfæringar á húsnæði standa yfir, skal ávallt tengja hann aftur að loknum vinnudegi. Þetta skal gert í samráði við vaktstöð.

Skylda

Skylt er að hafa viðurkennd vöktuð brunaviðvörunarkerfi í:

  • Fjölbýlishúsum sem sérstasklega eru ætluð öldruðum
  • Skólum og dagvistarstofnunum sem hýsa meira en 50 manns
  • Samkomuhúsum fyrir fleiri en 50 manns
  • Verslunarhúsnæði þar sem brunasamstæða er stærri en 1000 m2
  • Hótelum, dvalar- og heimavistum þar sem 20 eða fleiri gista
  • Iðnaðar- og geymsluhúsum þar sem brunasamstæða er stærri en 1000 m2
  • Einnig geta sérstakar aðstæður eða áhættur valdið því að brunaviðvörunarkerfis sé krafist.
Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Slökkvikerfi

Flest slökkvikerfi eru sjálfvirk sem þýðir að þau fara í gang annaðhvort við boð frá viðvörunarkerfi (hita-eða reykskynjarar) eða bræðivar á stút gefur sig við fyrirfram ákveðið hitastig. Í sumum tilfellum þarf hvorutveggja að koma til, dæmi um það eru forhlaupskerfi sem eru ein tegund vatnsúðakerfa. Einnig á að vera hægt að ræsa sum þessara kerfa handvirkt.

Vatnsúðakerfi

Vatnsúðakerfi geta haft áhrif á ákvörðun um leyfilegan fjölda fólks í byggingu. Ef saman fara vöktuð bruna- og vatnsúðakerfi, reykhólfun og reykræsing auk góðra flóttaleiða má reikna með að leyfi hafi fengist fyrir verulegum fjölda fólks í viðkomandi byggingu.

Margar gerðir eru til af vatnsúðakerfum og fer val á þeim eftir gerð bygginga, starfsemi og brunaálagi.

vatnsudakerfi01

Algengustu kerfin eru:

  • blaut kerfi, þar sem ávalt er vatn í lögnum að stút,
  • þurr kerfi, þar sem lagnir eru fylltar með lofti frá loftdælu í klefa kerfisins og
  • forhlaupskerfi, þar sem lagnir eru þurrar þar til brunaviðvörunarkerfi hleypir vatninu inn á þær.

Öryggi bæði fólks og mannvirkis eykst til muna ef sjálfvirkt vatnsúðakerfi er til staðar. Kerfið slekkur eld á byrjunarstigi, eða heftir útbreiðslu hans þar til slökkvilið kemur á staðinn. þannig kemur vatnsúðakerfið í veg fyrir verulegt tjón af völdum hita og reyks.

Það er útbreiddur misskylningur að vatnsúðakerfi geti valdið verulegum vatnsskemmdum þar sem margir telja að vatn komi úr öllum stútum þess þegar kerfið fer í gang. Sannleikurinn er hins vegar sá að bræðivör eru á stútum þeirra kerfa sem lögð eru í venjulegar byggingar. Bræðivörin gefa sig við fyrirfram ákveðið hitastig og opnast sá stútur því fyrstur sem er staðsettur næst eldinum og síðan koll af kolli ef eldurinn breiðist út, sem hann ætti ekki að gera ef  rétt er að verki staðið við hönnun og umgengnisreglur eru virtar.

Sjálfvirk vatnsúðakerfi eru öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir stórtjón af völdum bruna. Húseigendur eru hvattir til að skoða þennan valkost í byggingar sínar.

Sjá nánar reglugerð um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra úðakerfa nr.245/1994.

Afkastamikil vatnsúðakerfi eru í Smáralind

Afkastamikil vatnsúðakerfi eru í Smáralind

Gasslökkvikerfi

Gasslökkvikerfi eru algeng þar sem verja á minni rými og vatn er talið vera óæskilegt sem slökkviefni. Eftir að halon var bannað hafa skotið upp kollinum ýmsar nýjar tegundir slíkra kerfa og eru flest þeirra umhverfisvæn.

Dæmi um gaskerfi sem eru í notkun hér á landi:

§  Inergen inniheldur Köfnunarefni og Argon nánast til helminga, og er smá koltvísýringi bætt við blönduna til að örfa öndun hjá fólki sem kann að vera statt í rýminu þegar efnið streymir inn í það. Slökkviefnið á að lækka súrefnisinnihald andrúmsloftsins niðurfyrir 15% til að kæfa loga.

§  Argonite er blanda af Köfnunarefni og Argoni til helminga en inniheldur ekki Koltvísýring. Argonite er líkt Inergeni hvað slökkvimáttinn varðar.

§  Novec 1230 er eitt af þeim slökkviefnum sem eiga að koma í stað halonkerfanna. Þetta efni mun vera skaðlaust. Efnið er í vökvaformi og er hellt á flöskurnar til áfyllingar. Það gufar upp við stofuhita. Við fasaskiptin þenst efnið mikið.

Önnur slökkvikerfi

Ekki verður farið í nákvæma útlistun á kerfunum heldur aðeins minnst á mismunandi tegundir og við hvaða aðstæður þær henta best. Ekki eru heldur talin upp öll þau slökkviefni og kerfi sem boðið er uppá hér á landi en varast ber að fjárfesta í kerfum sem ekki hafa hlotið viðurkenningu Brunamálastofnunar.

Nokkuð er um að slökkvikerfi séu sett upp í atvinnueldhúsum. Kerfin eru fyrirferðalítil og slökkviefnið virkar vel á eld í feiti.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

HD Power Foam System 08 háþrýstislökkvidælur


hathrystidaela02

Búnaðurinn samanstendur af háþrýstidælu 200 bar, 16.1 l/mín.

Slönguhjól úr ryðfríu stáli með 60 m langri slöngu og froðustút.

Froðublöndungur er við dæluna en blöndun lofts fer fram í stútnum.

hathrystidaela01

200 L vatnstankur fylgir búnaðinum en einnig er hægt að tengja hana beint við vatnstank dælubifreiðareða önnur forðabúr ef henta þykir.

Búnaðurinn er fyrirferðalítill og er auðvelt að koma fyrir í hraðskreiðum tækjabílum eða hvaða skutbíl eða jeppa sem er og hentar t.d. sérstaklega vel með björgunarbúnaði við klippuvinnu. Þá hentar þessi búnaður vel við minni háttar yfirborðselda, gróðurelda og/eða almennt við fyrstu hjálp.

Þá má benda á lélega vegi t.d. að sumarhúsabyggðum eða útihúsum, sem þola ekki venjulegar þungar slökkvibifreiðar á vissum árstíðum en í þeim tilfellum getur þetta tæki veitt frábæra hjálp.

hathrystidaela03

Hægt er að nota nánast hvaða froðu sem er eða léttvatn með búnaðinum. Slangan er tiltölulega létt og meðfærileg.

Það skal tekið fram að góðar persónuhlífar verða að vera við notkun búnaðarins vegna gífurlegs þrýstings og aldrei má beina stútnum að fólki eða skepnum.

Búnaðurinn er framleiddur í Þýskalandi og viðurkenndur skv. DIN staðli. Afgreiðslufrestur er u.þ.b. mánuður.

Nánari upplýsingar

Guðmundur Bergsson
Sími: 863 5158
Tölvupóstur: [email protected]

Baldur S. Baldursson
Sími: 891 6221
Tölvupóstur: [email protected]

Birt undir flokknum Dælur | Tagged | Skrifið athugasemd

Eldvarnaeftirlit Eldstoða ehf.

View Larger Map

Birt undir flokknum Eldvarnaeftirlit | Tagged | Skrifið athugasemd