Mengunarslys

mengunarslys

Til að koma megi í veg fyrir slys af völdum hættulegra efna gilda í aðalatriðum sömu aðferðir og notaðar eru við mat á eldhættu.

  • Hefur eiturefnaslys komið upp í fyrirtækinu?
  • Er hætta á að eiturefnaslys geti átt sér stað?
  • Eru eiturefni geymd í byggingum eða á vinnusvæðum utandyra?
  • Eru eiturefni notuð eða geymd í nærlægum fyrirtækjum?
  • Hafa opinberir eftirlitsaðilar gert einhverjar athugasemdir?

Vörustæður innan sem utandyra mega ekki vera það stórar að reynst geti erfitt að slökkva í þeim. Sama gildir um söfnunar- og ruslahauga.

Þess ber að gæta að eldur geti ekki borist á milli slíkra stæða eða hauga.

Bruninn hjá Hringrás í Sundahöfn í nóvember 2004 er dæmi um óásættanlegar geymsluaðferðir sem urðu þess valdandi að til víðtækra björgunaraðgerða varð að grípa til að forða fólki frá heilsutjóni. Þá lagði stór hópur lögreglu- slökkviliðs- og björgunarsveitafólks sig í umtalsverða hættu við björgunar- og slökkvistörf.

Töluverð mengun varð af völdum brunans í lofti, á láði og legi.

Slíkar aðstæður verður að forðast.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Gas

gas02

Almennt um gas og gashylki

Mikil aukning hefur orðið á gasnotkun, sérstaklega í atvinnueldhúsum og í heimahúsum.

Gasgrill má víða sjá innandyra, bæði í íbúðar- og atvinnuhúsnæði að vetrarlagi, sem er í sjálfu sér allt í lagi ef gashylkin eru geymd utandyra, ef hylkin eru geymd úti á svölum verður að tryggja það að gasleki komist ekki í niðurföll, þetta gæti gerst ef skrúfað er frá hylkinu. Verður því að skrúfa vandlega fyrir og koma hettu fyrir yfir lokann eða pakka hylkinu inn í t.d. plastdúk.

Gaseldavélar eru orðnar algengar í heimahúsum. 11 kg. hylkin (gulu) eru yfirleitt staðsett í neðri skáp nærri eldavél í eldhúsi. Til að uppgötva gasleka verður að koma gasskynjara fyrir, til dæmis á sökkli innréttingar fyrir neðan skápinn.

Gashylki skulu ávallt staðsett þannig að gas, sem lekur út, safnist ekki fyrir og valdi eld- og/eða sprengihættu Við staðsetningu þarf einnig að taka mið af því að sem minnst hætta sé á að eldur berist í hylkin við eldsvoða.

Gashylki sem notuð eru í tengslum við atvinnustarfemi eru yfirleitt ekki með öryggisventil og því mjög hættuleg ef þau hitna mikið (springa). því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys af þeirri ástæðu.

F-gas

F- gas er að jafnaði blanda af própani og bútani, en einnig getur verið um nánast hreint própan að ræða. Eðlismassi þess er um 1,6 – 2 sinnum meiri en andrúmslofts. Þar sem það er litlaust og lyktarlaust er ætíð blandað í það sterku lyktarrefni. F- gas er eld og sprengifimt.

Staðsetning hylkjanna

gas01

Gashylki skulu standa upprétt á stöðugu, láréttu undirlagi, þannig skal frá þeim gengið að þau velti ekki. Tóm gashylki mega liggja á hliðinni. Gashylki má ekki stasetja í flóttaleið, ekki heldur í kjallara með gólf undir yfirborði jarðar nema gerðar séu viðeigandi öryggisráðstafanir, eins og gasskynjari og vélræn loftræsing.

Sé F-gas geymt í skáp utandyra skal fjarlægð þess frá opum, til dæmis gluggum, vera nægjanleg. Ef gasmagn er 40 – 200 kg. skal veggur á milli skáps og húss vera a.m.k. EI90. Veggurinn skal ná s.m.k. 1 m. út fyrir gashylkin. Sé ekki mögulegt að koma skáp fyrir utandyra, verður að útbúa sérstakt rými fyrir hylkin, til að mynda eldtraustan skáp við útvegg. Brunamótstaða skápsins skal vera að minnsta kosti EI60, skápinn á að loftræsa nægjanlega beint út bæði að ofan og neðan.

  • Ekki á að geyma gashylki innandyra í atvinnueldhúsum.
  • Ávallt skal merkja staðsetningu gashylkja í atvinnuhúsnæði með gasmerki.
  • Reykingar bannaðar skal komið fyrir bæði innan og utan á hurð forðageymslu.

Gasskynjarar og neyðarrofar

Ef gashylki eru staðsettar innandyra, og þar sem unnið er með gastæki innandyra, skal gasskynjara komið fyrir við gólf rýmis. Ef um stór gaskerfi er að ræða, skal koma segulloka fyrir framarlega á kerfinu. Jafnframt skal neyðarrofa komið fyrir á aðgengilegum stað. Neyðarrofi á að vera í öllum atvinnueldhúsum sem nota gas til eldunar, og eftir atvikum þar sem annar viðkvæmur atvinnurekstur fer fram.

Leyfilegt magn í atvinnuhúsnæði

Í atvinnuhúsnæði má geyma allt að 200 kg. í hylkjum án þess að sækja þurfi um leyfi til slökkviliðsstjóra, enda séu gerðar varúðarráðstafanir í samræmi við reglugerð um forðageymslur fyrir F-Gas. Tilkynna skal slökkviliðsstjóra um allt F- gas umfram 11 kg. í atvinnuhúsnæði. Tilkynna á slökkviliðsstjóra um hylki sem tengd eru saman í miðstöð.

Merkja á staðsetningu gashylkja og gastækja með gasmerki utandyra og eftir atvikum einnig innandyra, t.a.m. gasskáp. Það skal gert með viðurkenndu varúðarmerki.

Gaslagnir

Leyfi byggingarfulltrúa þarf fyrir gaslögnum í atvinnuhúsnæði (uppdrættir).

Viðurkenndan fagaðila skal fá til að leggja gaslagnir og hafa eftirlit með þeim.

Suðugas

  • Þar sem unnið er með gastæki skal merkja staðsetningu þeirra með gasmerki utandyra.
  • Gasflöskur á verkstæðum skulu geymdar á vögnum nærri útidyrum.
  • Gashylki eiga það til að springa í eldsvoða og eru því hættuleg.

Athugið: Vegna slysahættu eiga allir sem vinna með gastæki að æfa viðbragðsáætlun.

Viðbrögð við gasleka

  • Viðvörun, gaslykt
  • Varið fólk við hættunni
  • Skrúfið fyrir gastæki ef þið getið
  • Sláið út rafmagni
  • Varist neistamyndun
  • Loftið út
  • Byrgið niðurföll í gólfum
  • Tilkynnið til 112
  • Látið þjónustuaðila vita

Athugið: Forðið ykkur frekar en að ganga inn í gasský.

Ef eldur hefur komið upp

  • Varið fólk við hættunni.
  • Látið 112 vita.
  • Skrúfið fyrir gasstreymi.
  • Ekki slökkva loga á gastækjum
  • Notið brunaslöngu/vatnstæki til að kæla gasflöskur sem hitna.
  • Notið handslökkvitæki til að slökkva minniháttar bruna.

Athugið: Tryggið ykkur flóttaleið.

Ávallt skal fá fagmann til uppsetningar á gaslögnum og gasbúnaði.

Semja skal við viðurkenndan þjónustuaðila um eftirlit og viðhald.

Geymsla á hylkjum innandyra

Það er fremur lítið um að gasgrill séu notuð yfir veturinn. Til að koma í veg fyrir uppsöfnun á hylkjum í geymslukjöllurum, bílskúrum og víðar, þá er hægt gegn skilagjaldi að losa sig við hylkin til viðkomandi söluaðila, ný hylki eru síðan fengin að vori.

Ef gashylki (aðeins eitt er leyfilegt) er staðsett í eldhúsinnréttingu, skal koma því fyrir í neðri skáp, einum metra frá eldavél. Gasskynjara verður að koma fyrir á sökkli innréttingarinnar, sem næst gólfi, fyrir neðan skápinn.

Fáið fagmann til að koma lögnum og tækjabúnaði fyrir.

Kynnið ykkur hvernig á að bregðast við gasleka.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Raflagnir og raftæki

Rafmagnsslys

Um 30 % bruna vegna raflagna og raftækja eru í atvinnuhúsnæði.

Í 60% tilfella eru það sjálf raftækin sem eru orsakavaldar, röng notkun 29% og lausar tengingar 3%, ekki er vitað um orsakir í 8% tilfella.

Kostnaður vegna rafmagnsslysa er yfir 40 milljónir á ári.

Rafmagnskaplar

Rafmagnskaplar eiga að þola ákveðið álag í tilgreindan tíma.

Það þar að fylgjast með reglulegri endurnýjun rafmagnskapla.

Hvernig haga kaplar sér í bruna?

Við hönnun og val á vírum og köplum er mikilvægt að gera sér grein fyrir hegðun þeirra í bruna. Þá ber að hafa eftirfarandi sérstaklega í huga:

  • Hegðun í eldi, það er brunamark og hvernig þeir næra eld.
  • Afleiðingar af völdum tærandi eiturgufa.
  • Reykmyndun (myrkvun á flóttaleiðum og hindrun á slökkvistarfi).

Kaplar sem innihalda halógena eru einkum þeir sem búnir eru til úr efnum sem innihalda klór, til dæmis polyvínylklórið (PVC), klórmettað gúmmí (CR), teflon o.fl.

Klórsýra eða flúorsýra myndast við bruna í þessum efnum sem eru bæði tærandi og heilsuspillandi.

raflagnir

Halógenfríir kaplar

Halógenfríir kaplar eru uppbyggðir af hreinum kolvetnissamböndum. Við bruna slíkra efna myndast engar tærandi eða eitraðar gufur heldur einungis vatnsgufa og koldíoxíð.

Fjölliður eins og t.d. polýetýlen (PE) eða polypropýlen (PP) eru halógenfríar. Þessi efni brenna þó auðveldlega og eru ekki sjálfslökkvandi.

Halógenfríir kaplar fyrir öryggissvæði eins og til dæmis flóttaleiðir verða að vera tregbrennanlegir og sjálfslökkvandi. Það eru kaplar sem innihalda fjöliðusambönd, sem innihalda töluvert magn eldvarnaefna. Með notkun ýmissa viðbótarefna má ná tilætluðum virknitíma, til dæmis E90.

Gera verður kröfur um að nota skuli halógenfría öryggiskapla og víra í húsnæði þar sem fólk safnast saman eða þar sem þarf að vernda veruleg verðmæti t.d.:

  • Sjúkrahús, háhýsi, verslanamiðstöðvar, hótel, samkomuhús, skólar o.fl.
  • Ýmis viðvörunarkerfi, loftræsikerfi, rúllustigar, lyftur, öryggislýsing, skurðstofur, gjörgæslur o.fl.
  • Tölvulagnir, raforkuver, iðnaður með háu verðmætastigi og hættustigi o.fl.
  • Varaaflskerfi.
  • Það getur verið nauðsynlegt að nota halógenfría kapla í flóttaleiðum.

Í flóttaleiðum ættu kaplar að vera í tregbennanlegum kapalrennum í stað kapalstiga.

Úr reglugerð

Í 46. gr. byggingarreglugerðar segir að rafvirkjameistari beri ábyrgð á brunaþéttingum með lögnum sem þeir leggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta.

Í 188 gr.byggingarreglugerðar er almennt fjallað um lagnir, þar eru meðal annars settar fram kvaðir um notagildi, öryggi og hollustuhætti.

Hafðu augun opin fyrir bilunum i rafkerfum, og láttu lagfæra strax.

Bilaðar raflagnir og röng notkun raftækja er algeng  orsök bruna.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Loftræsting

Hönnun

Loftræstikerfi skal þannig hannað og frá því gengið að það rýri ekki brunahólfun byggingar eða stuðli að reykútbreiðslu við bruna.

  • Almennt eiga loftræstiklefar að vera í sjálfstæðu brunahólfi EI60 með hurð EIS30. klæðningar inni í klefanum eiga að vera í flokki eitt.
  • Í klefum fyrir mjög stór loftræstikerfi á brunahólfunin að vera EI90.
  • Undanþágur eru veittar frá þessu ákvæði ef búnaður og frágangur uppfyllir staðalinn DS 428.
  • Loftstokkar sem rjúfa EI90 brunaveggi eiga að vera með EI60 brunaloku í eða þétt upp við vegginn. Brunalokurnar eiga að loka ef hitastig í þeim verður 40°C eða meira. Þannig frágangur kemur ekki í veg fyrir úbreiðslu kaldari reyks.
  • Brunamótstaða lagnanna sjálfra á að vera a.m.k. E30, hægt er að ná mismikilli  brunamótstöðu með netull eða með brunaþolnum lagnastokkum.

Reyklokur eiga að vera í brunasamstæðuskilum atvinnuhúsnæðis og í skilum brunahólfa í húsnæði með rúmstæðum. Einnig er hægt að reykútlofta lagnirnar upp úr þaki og hafa mótstöðu í brunaskilum.

Það ber að hreinsa loftræstilagnir þegar óhreinindi eru komin yfir eðlileg mörk. Fyrir vanan þjónustuaðila dugir sjónskoðun til að meta ástandið.

Eftirlit með loftræstikerfum

  • Kanna hvort bruna- og reyklokur vinni rétt
  • Kanna aðgengi að bruna- og reyklokum og hvort við þær séu gaumlúgur
  • Prófa virkni hitarofa
  • Kanna mótstöður ef stokkakerfið er reykútloftað
  • Við skoðun skulu teikningar hafðar til hliðsjónar
  • Í handbók loftræstikerfis á að færa inn lýsingar á hreinsun loftstokka og prófun brunaöryggistækja

Heimildir: Leiðbeiningar Brunamálastofnunar, staðallinn DS 428

Eldunarútsog

loftraesting01

Mjög slæmt ástand er á eldunarútsogum hérlendis því flest þeirra eru ill- eða óhreinsanleg þar sem þau eru klædd af og ekki vatnsheld. Afar erfitt er og mjög seinlegt að olíuhreinsa loftstokka. Í sumum tilvikum verður að nota þurrís-blástur þegar ekkert annað dugar. Það þarf mikið magn af þurrís og hann er dýr. Í sumum tilfellum getur kostnaður við hreinsun eldunarútsogs verið álíka mikill og stofnkostnaður þess.

Þar sem gott aðgengi er að stokkakerfi og stokkarnir ekki stærri en 30 cm í þvermál getur verið ódýrara að setja nýja stokka í stað þess að hreinsa þá. Farsælast væri að hafa bandarísku NAPA#96 reglugerðina að leiðarljósi við smíði og uppsetningu eldunarútsoga. Þá væri hægt að hreinsa þau með heitu háþrýstivatni án mikils kostnaðar.

  • Loftræstistokkarnir þurfa að vera úr 1,25 millimetra þykku járni og án samskeyta (heilsoðnir) því reynslan hefur sýnt að ekkert kítti þolir olíu til lengdar.
  • Láréttir stokkar þurfa að vera með vatnshalla að háf.
  • Rafmótorinn í blásaranum verður að vera lokaður frá olíumettuðu loftstreyminu.
  • Þakblásara verður að vera auðvelt að opna og með vatnsheldri skrúfaðri kló.
  • Aðgangslúgur þurfa að vera 60×60 cm að stærð eða eins nærri því og stærð stokksins leyfir. Þær þurfa að vera eldþolnar og þéttingin eld- og olíuþolin.
  • Aðgangslúgur þurfa að vera við allar greinar og beygjur. Ekki skal vera lengra bil á milli þeirra en 4 metrar.

Bruna- og fituhreinsun stokka

Brunahreinsun og fituhreinsun þarf að framkvæma með heitum háþrýstivatnsþvotti og uppleysiefnum. Dælan þarf að afkasta um 12 lítrum á mínútu af 98°C heitu vatni við 200 bör. Þar sem stokkar eru ekki vatnsheldir er þurrísblástur eina leiðin til að hreinsa stokkana, en það er dýr aðgerð. Loftsuga er þá tengd við kerfið og þurr-ísperlum, sem eru frosin kolsýra, -79°C, er blásið með miklum þrýstingi á fituna eða olíu-filmuna, sé um brunatjón að ræða.  Blásturinn verkar á þrennan hátt. Fyrst frystir kælingin fituna og gerir hana stökka. Höggkrafturinn brýtur síðan fituna upp þegar perl-urnar lenda á yfirborðinu. Að lokum verða fjölmargar smásprengingar sem rífa upp frosna fituna. Þær verða þegar þurrísperlurnar lenda á yfirborði stokksins og auka rúm-mál sitt mörghundruð prósent við það að breytast aftur í kolsýru. Þurrísblástur er frekar seinleg og dýr hreinsiaðferð og nýtist best þar sem engin önnur leið er fær.

Eftirlitsaðferðir

loftraesting02

Tvær aðferðir eru til að mæla magn olíu í eldunarútsogum:

  1. Spaði með missíðum tönnum, 50-800 míkron, er dreginn eftir yfirborðinu og þykkt olíunnar metin eftir því hvaða tennur snertu óhreinindin.
  2. Rafeinda-dýptarmælir er notaður til að ákvarða þykkt óhreinindanna.

Ekki hafa verið settar reglur um tíðni hreinsana hér á landi, heldur er stuðst við mælingar á þykkt óhreinindanna.

Slökkvikerfi í atvinnueldhús

Til að kom á veg fyrir að eldur berist upp í háfa, og að starfsfólk verði fyrir alvarlegum meiðslum við að reyna að slökkva eld í feitispottum, hafa æ fleirri atvinnueldhús komið sér upp sjálfvirku slökkvikerfi fyrir ofan eldunartækin. Með tilkomu kerfanna er í mörgum tilfellum hægt að draga úr kröfum um brunahólfanir á milli eldhúss og annara rýma. Reynslan hefur kennt mönnum að það er afar erfitt og reyndar nær ómögulegt að slökkva í t.a.m. djúpsteikingarpottum með handslökkvibúnaði hvað þá að slökkva í lagnastokkum frá eldunarháfum.

Heimildir: Bogi Jónsson verkefnisstjóri hjá ÍSS Ísland ehf

Anzul slökkvikerfi

Anzul slökkvikerfi

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Einangrun

einangrun

Í gegnum tíðina hafa ýmsar gerðir einangrunar verið notaðar; reiðingur, marhálmur, spænir, korkur, glerull, steinull, hvítt plast (pólystýren), PIR(polyísósíanúrat), PUR (pólyúreþan) o.fl.

Almenna reglan er sú að einagrun í brunahólfandi veggjum skal vera þéttull eða sambærileg steinullareinangrun með rúmþyngd a.m.k. 30 kg/m3, að öðru leiti skal einangrun húsa vera úr óbrennanlegum efnum með eftirfandi undantekningum sbr. gr. 135.10 í byggingarreglugerð: Í útveggi á undirlag úr A-efni, í þessu tilviki á að klæða yfir með klæðningu í flokki eitt og ekki mega vera holrúm á milli (t.d. múrhúð).

Flestar steinsteyptar byggingar hér á landi eru einangraðar með frauðplasti innan á útveggi og múrað yfir. Ef veggirnir hitna mikið í elsvoða, bráðnar eiangrunin og skilur eftir holrúm á milli veggjar og múrs.

Ef lítil hætta stafar af þá má nota stálklæddar húseiningar með brennanlegri einangrun sem bráðnar ekki við hita, í þök og veggi einnar hæðar húsa.

Þessar húseiningar eru varasamar í eldi því við að hitna má gera ráð fyrir formbreytingum sem geta valdið hruni á þeim.

Athugið: Brennanlega einangrun má ekki nota í timburþök eða óvarða ofan á plötu að þakrými.

Frauðplast var mikið notað til að einangra þök og er víða óvarið ofan á steyptum plötum í þakrýmum t.a.m. fjölbýlishúsa, sumstaðar hefur tjörupappa verið komið fyrir ofan á einangruninni.

Þar sem bændur hafa einangrað gripahús með frauðplasti/bóluplasti, þyrftu þeir að fjarlægja plastið og setja steinull í staðinn. Ekki er nóg að klæða neðan á plastið með stálklæðningu. Klæða má plastið af með trefjagipsi. Er þetta markmið sem bændur þurfa að setja sér. Ekki er ætlast til að þetta sé gert strax, heldur framkvæmdir sem yrðu settar framarlega í forgangsröðunina.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Klæðningar

Innanhússklæðningar

Klæðningar innanhúss sem eru úr eldnæmum byggingarefnum og ná ekki að vera í flokki eitt eða tvö, geta verið úr efnum sem brenna tiltölulega hratt. Ekki er leyfilegt að nota slíkar klæðningar innanhúss hér á landi.

Slíkar klæðningar ásamt auðbrennanlegum innanstokksmunum geta orsakað hraðan bruna sem er mun hættulegri en bruni í tregbrennanlegum efnum og er líklegri til að valda mannskaða og eignatjóni því hann hefur hraðavirkari áhrif á

  • hættu á yfirtendrun í rýminu
  • útbreiðslu reyks til annarra rýma
  • slökkvistarf
  • útbreiðsluhættu til að mynda vegna geislunar

Utanhússklæðningar

Í einnar hæðar byggingum á yfirborðsflöturinn að vera með að minnsta kosti eiginleika klæðninga í flokki tvö. Í hærri byggingum á yfirborðið að vera sambærilegt að gæðum og klæðning í flokki eitt með þeirri undantekningu að smáfletir allt að 20% af veggfletinum mega vera með klæðningu í flokki tvö. Lóðrétt mega þær ekki þekja nema helming hverrar hæðar og miða skal við að þær beri ekki eld á milli hæða, reglurnar eru lágmarksákvæði.

Aðrar aðferðir má nota ef þær eru jafn öruggar eða betri.

klaedning01

Nokkrar algengar klæðningar

Brunamótstaða klæðninganna er gefin upp í mínútum miðað við staðlaða brunaáraun.

Í töflunni eru bæði klæðningar í flokki eitt og flokki tvö.

Klæðning í flokki eitt er klæðning sem logar ekki og eykur því ekki við það brunaálag sem fyrir er, loga- og reykmyndun verður því minni.

Þegar talað er um klæðningu í flokki eitt í flóttaleið er í raun átt við yfirborð klæðningarinnar, það er því ekki í öllum tilfellum nauðsynlegt að fjarlægja klæðningu sem fyrir er, gipsklæðningin kemur einfaldlega utan á eldri klæðninguna.

klaedning02

Smelltu á töfluna til að sjá stærri útgáfu

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Brunahólfanir

Tilgangur brunahólfunar

Ef eldur kemur upp í byggingu þá á hönnun og frágangur að tryggja eftirfarandi:

  • Að útbreiðsla elds og reyks innan byggingarinnar sé takmörkuð með viðurkenndum hætti.
  • Að útbreiðsla brunans til mannvirkja í grenndinni sé takmörkuð með viðurkenndum hætti.

Vel búið slökkvilið á að geta slökkt eld í brunahólfi með 60 mínútna brunamótstöðu, áður en hann berst yfir í næstu rými. Skil brunahólfs eru yfirleitt EI60.

Brunahólfunin á að halda í tiltekinn tíma og koma í veg fyrir að eldur, hiti og reykur berist til nærliggjandi brunahólfa. Hurðir og hlerar mega í ýmsum tilvikum vera með allt að helmingi lakari brunamótstöðu eða EI(C)S30 (E(C)S30).

Athugið: Mikilvægt er að brunahólfandi veggur nái upp í ystu þakklæðningu eða gengið sé frá honum á annan viðurkenndan hátt.

ES30 hurðir með vírgleri hafa 30 mínútna brunamótstöðu ef ísetning og annar frágangur er í samræmi við reglur og leiðbeiningar Brunamálastofnunar. Stærð á rúðu úr vírgleri (E30) má ekki vera yfir 1 m. að breidd og 1,5 m. á hæð til að standast brunahólfun. Varmageislun í gegnum vírgler er um 50% minni en í gegnum op. Gler sem kemur að mestu leiti í veg fyrir varmageislun (W) er víða notað þar sem sambrunahætta er til staðar, og í flóttaleiðum.

Brunahólf getur verið afmarkað með hleðslugleri af viðurkenndri gerð.

Brunasamstæða

Brunasamstæða er rými sem getur verið með eitt eða fleiri brunahólf innan síns ramma.

  • Samstæðan á að vera aðskilin frá öðrum samstæðum eða byggingum með a.m.k. REI90 byggingarhlutum og er þá bæði átt við veggi og hæðaskil.
  • Upp við þak eiga veggir á milli sambyggðra húsa að vera með frágangi eldvarnaveggs.
  • Hurðir í brunasamstæðuveggjum eiga að vera a.m.k. EICS60.

Eldvarnaveggir

Eldvarnaveggir (REI-M120) eru veggir sem standa á sjálfstæðum undirstöðum og eiga að standa eftir þó að hús brenni til grunna. Veggirnir eru yfirleitt úr a.m.k. 16 cm. þykkri járnbentri steinsteypu og eiga að ná 30 cm. upp fyrir þök, eða að frá þeim sé gengið á annan viðurkenndan hátt.

  • Eldvarnaveggur á að vera á milli sambyggðra fjölbýlishúsa. Grunnflatarmál á milli eldvarnaveggja má ekki fara yfir 600 m2.
  • Um fjarlægðir í tréverk er fjallað í byggingarreglugerð.
  • Ef op er sett í eldvarnavegg skal gengið frá því á viðurkenndan hátt.
  • Ef bygging stendur nær lóðarmörkum en gefið er upp í reiknireglum byggingarreglugerðar, skal hún hafa eldvarnavegg.
  • Sambyggð hús geta haft sameiginlegan eldvarnavegg á lóðarmörkum.

Fjölbýlishús til viðmiðunar

Í byggingarreglugerð gilda reglur um fjölbýlishús sem lágmarkskröfur fyrir flestar aðrar byggingar með nokkrum undantekningum sem koma fram í sérköflum fyrir mismunandi starfsemi í byggingum.

Ef um lítil atvinnuhúsnæði er að ræða er yfirleitt leyfilegt að miða við kröfur sem gerðar eru til fjölbýlishúsa, er þá yfirleitt miðað við fólksfjölda undir 50, hámarksstærð 150 m2 eða gistirými fyrir 11-20 manns ef samtengdir reykskynjarar eru til staðar.

brunaholf

  • Í fjölbýlishúsum eiga veggir og hæðaskil á milli íbúða að vera að minnsta kosti REI90.
  • Veggir að stigahúsum eiga að vera að minnsta kosti AEI60.
  • Hurðir eiga að vera að minnsta kosti EICS30.
  • Hurð að geymslukjallara á að vera að minnsta kosti EICS60.
  • Innbyggð sorpgeymsla á að vera að minnsta kosti AEI60 og ekki má vera innangengt í sorpgeymslu.
  • Loftun sorprennu á að ná upp úr þaki um rör sem einangra á að minnsta kosti með netull í þakrými. Ef útloftun sorprennu endar í þakrými er hætt við að eldurinn berist þangað, breiðist þar út og jafnvel yfir í næstu þakrými og stigahús ef brunahólfun er léleg á milli húsa.
  • Ónotuðum þakrýmum sem eru meira en 500 m2 á að skipta í brunahólf EI60.
  • Skil að ónotuðu þakrými geta verið með minni brunamótstöðu en önnur hæðaskil, en þó aldrei lakari en REI30.

Þessi atriði eiga jafnframt við um fleiri byggingar.

Kröfur um brunahólfanir

Í byggingarreglugerð eru settar fram kröfur um stærð og gerð brunahólfa.

Kröfurnar eru mismunandi því miðað er við gerð byggingar og þá starfsemi sem í henni á að vera. Á uppdráttum þarf að gera grein fyrir brunavörnum og samþykki byggingarfulltrúa verður að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

Skólar

  • Skólastofa EI60 með EICS30 hurðum
  • 600 m2 hámarksstærð brunasamstæðu sem inniheldur kennsludeild í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1200 m2 hámarksstærð brunasamstæðu sem inniheldur kennsludeild í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 og stærri skulu brunahannaðar

Samkomuhús

  • Samkomusalur skal vera a.m.k. EI60 með a.m.k. EICS30 hurðum
  • 500 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1500 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi,undanþága frá þessu ákvæði er í byggingarreglugerð
  • 2000 m2 eða stærra skal brunahanna

Verslanir

  • 1000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í tveggja hæða húsi
  • 2000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 eða stærri skulu brunahannaðar

Hótel og sambærileg starfsemi

  • Herbergi skal vera sjálfstætt brunahólf a.m.k. EI60 með a.m.k. EICS30 hurðum
  • 600 m2 hámarksstærð brunassamstæðu í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 og stærra skal brunahannað
  • Einnig skal brunahanna hús þar sem fólk á erfitt með að bjarga sér sjálft.

Iðnaður

  • Mismunandi brunaáhættur eiga að vera í sjálfstæðu brunahólfi sé bygging stærri en 500 m2
  • 2000 m2 og stærra skal brunahanna

Slökkvilið þurfa að treysta á brunahólfanir til að hafa raunhæfa möguleika á að hefta útbreyðslu elds. Brunahólfanir auka öryggi fólks og draga úr eignatjóni.

Veikleikar brunahólfana

Það er algengt að sjá lélegan frágang í kringum lagnir sem liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta. Í byggingarreglugerð er tekið fram að iðnaðarmenn skulu ganga frá götum eftir að lagnavinnu líkur. Lélegur frágangur í kringum lagnir getur valdið stórtjóni í eldsvoða og gerir slökkviliðsmönnum erfiðara fyrir.

Þar sem loftræsilagnir liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta þarf í vissum tilfellum að koma brunalokum fyrir í þeim eða einangra þær með steinull og klæða með gipsi í þeim rýmum sem loftræsingin þjónar ekki.

Í sumum byggingum eru loftræsikerfi tengd við brunaviðvörunarkerfið sem slekkur á loftræsingu ef reykur berst inn í lagnirnar. Þessi aðgerð getur verið ráðstöfun til úrbóta í byggingum þar sem erfitt er að koma brunalokum fyrir.

Eldur má aldrei ná að dreifa sér.

Rétt brunahólfun getur komið í veg fyrir stórtjón.

Mundu að hver stórbruni byrjar sem lítill.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Burðarvirki


Í 7. kafla byggingarreglugerðar eru skilgreind meginmarkmið brunavarna. Þar segir að ef eldur kemur upp í mannvirki eigi burðargeta þess að haldast í fyrirskrifaðan tíma og tryggja eigi öryggi manna sem vinna við slökkvi – og björgunarstörf sem allra best.

Hönnun á brunamótstöðu burðarvirkja

Í brunahönnun er tekið mið af brunaáraun og formbreytingum af völdum hita í burðarvikjum. Notast er við staðla fyrir stálvirki, timburvirki og steinsteypuvirki. Brunaáraun getur verið mismunandi og getur verið ákvörðuð útfrá stöðluðu brunaferli eða raunverulegu brunaálagi.  Aðalmálið er að burðarvirki haldi allan bruna- og kólnunartímann. Brunahönnun burðarvirkja er eðlilegur hluti af brunahönnun bygginga, en byggingarreglugerð gerir kröfu um brunahönnun í eftirfarandi tilvikum:

  • Húsnæðið er með stærri samanlagðan gólfflöt en 2000 m2.
  • Húsnæði er ætlað fólki sem er illa fært um að bjarga sér úr bruna.
  • Iðnaðar og geymsluhús þar sem brunaálag er meira en 400MJ/m2 gólfflatar.
  • Þar sem vænta má stórbruna eða sprenginga.

Burðarvirki geta verið óeldvarin ef hönnun þeirra gerir ráð fyrir að þau standist bruna- og kólnunartíma (sjá hér fyrir ofan)  og er þá reyklosun oftast einn þátturinn. Algengt er að eldverja aðalburðarvirki til að ná þessum markmiðum. Er það gert með steinullareinangrun og klæðningu í flokki eitt, eldvarnamálningu eða öðrum viðurkenndum efnum og aðferðum, jafnvel vatnsúðakerfi.

Athugið: Varasamt getur verið að rýra burðarþolið með því að bora eða saga í burðarvirki, við það missa þau hluta af styrk sínum.

Sé um sambyggðar byggingar að ræða þarf að huga vel að stöðugleika burðarvirkja í eldi, meðal annars með það í huga að ef  burðarvirki í lengju sambyggðra bygginga gefa sig og falla, gætu þau skekkt eða jafnvel togað niður burðarvirki næstu byggingar. Einnig þarf að huga að hitaþenslum og leiðni einkum í stálvirkjum.

Reyklosun til varnar burðarvirkjum

Í byggingum sem ekki standast kröfur sem gerðar eru til burðarvirkja geta burðarvirkin gefið sig í eldi nema einhverjar mótvægisaðgerðir komi til.

Í iðnaðar- og geymsluhúsum getur reyklosunin verið um viðurkennda auðbrennanlega þakklæðningu sem oft er miðað við að sé 5% af gólfflatarmáli hússins. Þessi klæðning á að bráðna áður en hitastigið nær 450°. Best er að nota polycarbonat plast (PC) en það drýpur ekki logandi dropum eins og acrylplastið.

Í iðnaðar- og geymsluhúsum >1000 m2 á alltaf að vera viðurkenndur reyklosunarbúnaður sem yfirleitt eru reyklúgur sem opnast við boð frá reykskynjara eða eru á bræðivari, heildarflatarmál slíks búnaðar er oftast  mun minna en þess auðbrennanlega.

Ætíð skal hafa það í huga að burðarvirki geta gefið sig í eldi. Þetta geta verið aðalburðarvirki byggingarinnar eða burðarvirki innan hennar, eins og burðarvirki milligólfa eða hillurekka. Hafa ber í huga að brot á súlum veldur yfirleitt sneggra hruni en brot á bitum.

Merkingar á teikningum

Burðarvirki bygginga eru mismunandi að gerð en eiga að standast brunaálag í einhvern tiltekinn tíma og eru þá oftast merkt R-30 eða meira á teikningum, allt eftir notkun og stærð bygginga. Hæðaskil eru oftast merkt REI60 en hæðaskil á milli íbúða REI90.

Lágmarks burðar- og brunaþol burðarvirkja í mismunandi húsnæði:

  • Einbýlishús: REI30; úveggir, milliv., súlur bitar, hæðaskil
  • Einbýlishús: REI60; hæðaskil yfir bílskúr eða bílskýli
  • Fjölbýlishús: REI-M120; á milli stigahúsa
  • Iðnaðarhús: REI60; kjallari frá efri hæðum
  • Iðnaðarhús: 200-1000 m2;  einangruð burðarvirki eða reyklosun
  • Iðnaðarhús: R30; brunamótstaða milligólfa, ath. þunga
  • Bílageymslur: REI90; nær lóðamörkum en 3 m.
  • Bílageymslur: REI-M120; nær lóðamörkum en 1 m.
  • Gripahús: REI-M120; á milli gripahúss og hlöðu
  • Vélahús: REI-M120; á milli vélahúss og hlöðu/gripahúss

Algeng byggingarefni

Mismunandi byggingarefni eru notuð í burðarviki. Hér á landi er algengast að burðarvirki séu staðsteypt úr járnbentri steinsteypu en einnig er nokkuð um strengjasteypu. Timbur þar með talið límtré, og stálburðarvirki eru nokkuð algeng í stórum mannvirkjum, einkum einnar hæðar skemmum, og eru stálgrindarsperrur þar í mikilli sókn. Algengt er að burðarvirki efstu hæða sé úr léttari efnum en burðarvirki neðstu hæða og eru minni kröfur á efstu 12 metrum bygginga, reiknað frá gólfi efstu hæðar eða R60, en burðarvirki þar fyrir neðan R120 og R30 fyrir ofan efstu gólfplötu.

Steinsteypa

Steinsteypa hefur háan þrýstistyrk en lágan togstyrk. Því er steypan oftast styrkt með járnum til að taka við togkröftum.  Ef burðarvirki eru úr hefðbundinni járnbentri staðsteypu er hætta á hruni mun minni en ef burðarviki eru úr forspenntri steinsteypu. Afgerandi þáttur er hver þykktin á steypunni er inn að styrktarjárnunum. Það tekur töluverðan tíma fyrir varma frá eldi að hita steypuna það mikið að það hafi áhrif á járnbendinguna en þó þarf að fylgjast með því hvort steypan flagnar.

  • Við 300° C hefur venjulegt bendistál misst óverulegan styrk.
  • Við 600° C er nær allur burðarstyrkur farinn úr því.
  • Við staðlaðar eldþolstilraunir á járnbentum steinsteypubitum kom í ljós, að þegar yfirborðshiti er 1000° í eina klukkustund er hitinn 5 – 10 cm. inni í bitanum um það bil 300°, hafa þá þolmörk steypunnar minnkað verulega. Hætta er á að langir steinsteypubitar geti spyrnt út veggjum við mikla hitaaukningu. Hætta stafar af strengjasteypubitum bæði í og eftir eldsvoða.

Steinsteypa er meðal traustustu byggingarefna og eru 8 cm. járnbentir veggir og hæðaskil talin vera eldtraust í 60 mínútur.

Forspennt steinsteypa

Ef vandað er til hönnunar og frágangs bygginga með burðarvirki úr strengjasteypu má segja að þær séu nokkuð góðar brunatæknilega séð en geti verið varasamar ef brunaálagið er mikið.

  • Við að hitna í 200° C halda betri tegundir af stáli eins og notað er í strengjasteypu um 80% af upprunalegum styrk sínum.
  • Við að hitna í 400° C er stálið í strengjasteypunni búið að missa meira en 60% af styrkleikanum. Af þessu sést að burðarþol strengjasteypu í eldi minnkar verulega við að hitna í 200 – 300°.

Ef  einn burðarás, veggur eða súla gefur sig getur öll byggingin hrunið eins og spilaborg.

Burðarvirki úr forsteyptum einingum geta verið hættuleg í og eftir eldsvoða.

Stálburðarvirki

Stálburðarvirki geta verið af margvíslegri gerð, það geta verið súlur, sperrur, bitar o.fl. Í iðnaðar- og geymsluhúsum eru burðarvirki mjög oft úr stáli, sérstaklega þakburðarvirki. Þegar breytingar verða á starfsemi í slíkum húsum til dæmis með því að breyta þeim í verslunarhúsnæði, þá gilda önnur sjónarmið sem krefjast aukinna brunavarna og þarf þá að fara fram brunatæknileg úttekt á þeim, í framhaldinu fylgir oftast brunahönnun. Í brunahönnun eru margvíslegar aðferðir notaðar til að ná ásættanlegu öryggi, e.o. sjálfvirk reyklosun tengd viðvörunarkerfi, vatnsúðakerfi o.fl.

Ef hitinn í stálburðarvirki fer í 500° C má reikna með að það geti orðið skyndilegt hrun (einkum á súlum) eða þá að stálið sígur niður (einkum bitar). Óeldvarið stál hefur um það bil 10 mínútna brunamótstöðu, því er nauðsynlegt að eldverja stálburðarvirki þar sem hiti getur farið yfir 450° C.

Mikil varmaleiðni er í stáli.

Grindarsperrur

burdarvirki

Kraftsperrur úr stáli eru mjög varasamar í eldi þó svo að reykræst sé því þær eru yfirleitt efnislitlar og geta fallið niður eftir tiltölulega skamman tíma í eldi, til dæmis vegna staðbundins lítils elds sem næði að hita hluta slíkrar sperru uppfyrir þolmörk hennar.  Ef grindarsperra gefur sig gæti það haft áhrif á stöðugleika byggingarinnar. Í fallinu getur hún togað með sér aðra byggingarhluta eins og súlur, sperrur og veggi, og með því valdið umtalsverðu hruni.

Ef slíkri byggingu er skipt niður í brunahólf eða brunasamstæður þarf að athuga hvort veggirnir á milli hólfanna kæmu til með að þola slíka áraun.

Í því sambandi er aðeins hægt að treysta á eldvarnaveggi og að sama sperran sé ekki þakburðarvirki tveggja eða fleiri brunahólfa.  Í flestum tilfellum er nauðsynlegt að eldverja burðarvirki úr stáli.

Tréburðarvirki

Timburbyggingar eru algengar og eru burðarvirki þeirra yfirleitt ekki varin sérstaklega heldur er treyst á þykkt burðarvirkja því timbur missir ekki styrk sinn á sama hátt og t.d. stál. Föst efni þurfa ákveðið hitastig til að í þeim kvikni (íkveikjumark). Gasmyndun frá tré byrjar við 200 – 250° C upphitun. Yfirleitt þarf að hita efnið upp í um 300 – 400° C til að það gefi frá sér nægjanlegt magn af brennanlegum gufum til að hægt sé að kveikja í því  með loga. Við að hita það upp í rúmlega 400° C kviknar í því án þess að loga sé beint að því. logarnir auka á brunahraðann og hitinn í rýminu eykst mikið.

Ef timburburðarvirki eins og límtrésbitar eru hafðir það efnismiklir að þeir haldi styrk þó að eitthvað brenni utan af þeim (brunahraði þess er talinn vera 0,7 mm. á mínútu) er ekki talin þörf á að eldverja þá sérstaklega ef þeir halda burðarþoli í tiltekinn tíma.

Ekki er hægt að treysta blint á að límtrésburðarvirki séu örugg í eldsvoða. Það fer eftir lögun þeirra og þá sérstaklega þykkt miðað við hæð hvort hætta sé á að þeir velti eða hreinlega brotni í eldi. Stálfestingar eru algengar í burðarvirkjum úr límtré og eru oft veikur hlekkur.

I bitar sem stundum eru notaðir í hæðaskil geta einnig verið varasamir í eldi.

Í timbri eru hitaleiðni og hitaþensla léttvæg. Styrkur þess breytist ekki við upphitun eða vatnskælingu.

Blönduð burðarvirki

Mikið er um að samsetningarefni og ásetur séu úr járni og þar gæti veikasti hluti burðarvirkja verið í eldi, t.a.m. eru ásetur límtrésbita og sperra oft  óeldvarðar stálskúffur boltaðar í steinsteyptan útvegg. Gataplötur eins og BMF tengin hafa yfirleitt ekki meira en 5-7 mín togþol í bruna. Togfestingar ætti því alltaf að eldverja. Boltar og önnur festingaefni eiga að vera af viðurkenndri gerð.

Athugið: Það eru til dæmi um að burðarvirkjum hafi verið breytt án aðkomu hönnuðar að málinu og samþykkis byggingaryfirvalda, en slíkt er með öllu óheimilt.

Reglugerðarákvæði

Í iðnaðar og geymsluhúsum eru íbyggingareglugerð eftirfarandi ákvæði um burðarvirki:

  • “Í einnar hæðar byggingu sem er minni en 200 m2 að gólfflatarmáli er ekki gerð sérstök krafa um brunamótstöðu burðarvirkja enda sé ekki mikil eldhætta af starfseminni að mati byggingaryfirvalda”.
  • Í einnar hæðar byggingu 200 – 600 m2 a.m.k. R30
  • Í einnar hæðar byggingu > 600 m2 a.m.k. R60
  • Hús 200 m2- 1000 m2 eiga að hafa viðurkenndan reyklosunarbúnað sem miðast við að meðalhitastig í reyklagi sé innan við 450° C. Að öðrum kosti sé eldvörn a.m.k. R60.
  • Hús stærra en 1000 m2 skal hafa viðurkenndan  reyklosunarbúnað.

Reyklosun getur verið afgerandi þáttur til að verja burðarvirki gegn hruni.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Reyklosunarbúnaður bygginga

reykjarmyndun01

Reyklosun er mikilvæg. Það er mikilvægt að losna sem fyrst við eyðandi orku og reyk út úr brennandi byggingu.

Reykjarmyndun

Í öllum bruna myndast reykur, efni í reyk eru mismunandi eftir því hvað brennur. Þegar viður brennur er yfirleitt hægt að losna við reykinn með náttúrulegri reykræsingu en stærð opa í byggingu ræður þar miklu.  Við bruna í plastefnum í rými með takmarkaða útloftun myndast mikill reykur sem eykst með aukinni loftræsingu. Við aukna notkun á plasti í byggingum fylgir aukinn reykur og eiturgufur í bruna.  Með prófunum hefur verið sýnt fram á að tré gefur meiri reyk frá sér við glóðarbruna en við bruna með loga. Sum plastefni gefa hins vegar frá sér meiri reyk við bruna með loga.

Prófun fer þannig fram að einu g. af brennanlegu efni er komið fyrir 1 m3 rými. Ljósgeisli er notaður til að mæla þéttleika reyksins í % á lengdarmetra (ljósísog, DO).

Reykmyndun í nokkrum efnum með loga:

  • Spónaplata: 0,37
  • Pappír: 0,22
  • Hart PVC: 1,70
  • Hart pólyúreþan: 4,20
  • Gipsplata: 0,046

Af þessu sést að gips er ákjósanlegt í innanhússklæðninga, og ætti að nota innan íbúða og á mannmörgum stöðum. Það logar ekki og gefur frá sér lítið af reyk og jafnframt lítið af eiturefnum. Önnur efni eins og eldvarðar spónaplötur sem loga ekki gefa hins vegar frá sér eiturefni í bruna.

Reykfyllingartími ræðst að mestu leyti af brunaálagi, brunahraða og rúmmáli rýmis og skiptir lofthæðin máli í því sambandi. Það getur verið nauðsynlegt að nota öflugan sjálfvirkan reyklosunarbúnað í iðnaðarhúsum, á mannmörgum stöðum eða viðkvæmum. Flóttaleiðir eiga að vera nánast reykfríar á meðan fólk forðar sér út.

Búnaður

Aðferðir til reyklosunar eru annars vegar náttúrleg og hins vegar vélræn. Hvor af meginaðferðunum er notuð fer eftir aðstæðum. Reyklúgur, reyksugur, loftræsikerfi, auðbrennanlegar þakplötur og reyktjöld eru að verða algengur búnaður til reyklosunar og stjónunar á henni.  Vegna þess hve reyklosun er veigamikill þáttur í slökkvistarfi er ákaflega brýnt að nota þann búnað sem er til staðar ef eldur kemur upp.

Hér verður gerð stutt grein fyrir helstu tegundum reykræsibúnaðar í húsum.

Reyktjöld og reykskermar

reykjarmyndun02

Reyktjald er búnaður sem festur er í loft og á að falla niður við boð frá viðvörunarkerfi. Búnaðurinn sem á að vera úr tregbrennanlegu efni, nær frá lofti og niður í einhverja fyrirfram ákveðna hæð frá gólfi. Reyktjald á að koma í veg fyrir að reykur berist um alla bygginguna. Reykskermur er fastur búnaður sem gegnir sama hlutverki og reyktjaldið en getur verið úr efnum  eins og steinsteypu, hitaþolnu gleri eða stáli.

Auðbrennanlegar þakplötur

Auðbrennanlegar þakplötur eru fyrs og fremst ætlaðar til eignaverndar með því að minnka álagið á burðarvirki byggingarinnar. Þessi búnaður er nær eingöngu úr plastefnum sem brenna í sundur og opnast áður en hitastigið í reyklagi inni í byggingunni verður of hátt. Þakplöturnar brenna yfirleitt við 200°C-300°C. Þær eiga að vera 5% af gólfflatarmáli og dreifast jafnt á þakið.

Reyklúgur

reykjarmyndun03

Reyklúgur eru lúgur eða gluggar sem opnast við boð frá viðvörunarkerfi eða eru tengdar við bræðivar. Algengast er að þær séu í þaki bygginga en geta einnig verið ofarlega í veggjum.  Reyklúgur á bræðivari opnast með hjálp frá pumpum þegar bræðivarið bráðnar við ákveðið hitastig. Eftir það er ekki hægt að hafa stjórn á opnuninni nema með handafli utanfrá.  Reyklúgur sem tengdar eru við kerfi opnast við skipun frá kerfinu. Þessar lúgur eru oftast mótordrifnar og á að vera hægt að stjórna þeim handvirkt eftir að kerfið hefur verið endurstillt. Búnaðurinn á að vera tengdur við varaaflgjafa. Þá er einnig til gasknúinn opnunarbúnaður sem yfirleitt er bæði handvirkur og  tengdur við reykskynjara.

Heildarflatarmál reyklúga er yfirleitt mun minna en auðbrennanlegrar þakklæðningar.

Athugið: Reyklúgur skulu vera viðurkenndar af Brunamálastofnun.

Reyksugur

Reyksugur (blásarar) eru helst notaðir í gluggalausum rýmum þar sem brunaálag er mikið, rýmið stórt eða lyfta þarf reyklagi þann útreiknaða tíma sem fólk þarf að hafa til að forða sér út. Ef allir þessir þættir eru til staðar þurfa slíkar sugur að vera mjög öflugar. Þar sem fleiri en ein suga eru til staðar er hægt að stjórna því hver reyklosar, er þá miðað við reyk- eða brunahólfun rýmis eða byggingar. Viðvörunarkerfi gæti tekið þetta hlutverk að sér þar til slökkvilið ákveður að taka stjórnina á reyklosuninni í sínar hendur.

Loftræsikerfi

Loftræsikerfi getur reykræst gluggalaus rými ef gert er ráð fyrir þeim möguleika í hönnun kerfisins. Hægt er að láta viðvörunarkerfi stjórna útsogi úr rýminu sem reyklosa á, sjá rýminu fyrir mátulega miklu aðlofti og jafnframt sjá fyrir auknu aðstreymi lofts til nærliggjandi rýma til að hefta útbreiðslu reyks. Slökkviliðið tekur yfirleitt að sér stjórnun á reyklosuninni þegar það kemur á staðinn.  Til að ná viðunandi reyklosun þarf alltaf að sjá rými sem á að reyklosa fyrir mátulegu aðstreymi lofts undir reyklaginu.

Kröfur um reyklosun

reykjarmyndun04

Gluggi á hverri hæð. Dæmi um sjálfvirka og handvirka opnun.

Vegna þess hve hús eru mismunandi eru kröfur til reyklosunar æði margvíslegar.  En einnig ráða þættir eins og tilvist slökkvikerfa miklu um þær kröfur sem gerðar eru til reyklosunar.  Hér eru nokkur dæmi um lágmarkskröfur er varða sjálfvikan reyklosunarbúnað.

  • Bílageymslur >100 m2 eiga að hafa op til reyklosunar
  • Stigahús, gluggi á hverri hæð
  • Gluggalaust stigahús, sjálfvirk reyklúga
  • Samkomuhús >200 m2, gluggalausir salir
  • Bílageymslur >600 m2, vélræn ef gólf er undir yfirborði jarðar og ekki er vatnsúðakerfi
  • Iðnaður 200-1000 m2 viðurk. reyklosun eða R60 burðarvirki (auðbr.)
  • Iðnaður > 1000 m2 viðurk. reyklosun
  • Kjallarar 0.5% eða 0.25m2

Yfirleitt er gert ráð fyrir reyklosun í brunahönnuðum byggingum.

Kjallarar

Í kjöllurum og öðrum neðanjarðarrýmum eiga að vera gluggar eða annar búnaður til að reyklosunar. Ef um geymsluhúsnæði er að ræða eiga opin að vera a.m.k. 0,50% af gólffleti. Stærð hvers ops á að vera a.m.k. 0,25m2. Ef önnur notkun er á rýminu ákveður slökkviliðsstjóri eða fulltrúi hans hver lágmarksstærð opanna á að vera.

Ferskt loft undir reyklagið

Nauðsynlegt er að hafa stjórn á reyklosuninni með því að hleypa fersku lofti inn í bygginguna undir reyklaginu, í réttu hlutfalli við reykopin, í brunahönnuðum byggingum er oft farið fram á að þessi stjórnun á aðstreymi fersks lofts sé sjálfvirk.  Þetta er m.a. gert til að koma í veg fyrir að fólk lokist inni vegna þrýstingsmunar sem getur gert illmögulegt að opna hurðir milli rýma. Í sumum tilfellum opnast reyklúgur fyrst þar sem hitinn er mestur og síðan koll af kolli. Handstýrð neyðaropnun er á sumum lúgum, þá oftast sem búnaður til vara.

Ekki hindra reyklosun

Ekki má byrgja fyrir reyklosunarop, hvort heldur um er að ræða auðbrennanlegar plötur eða sjálfvirkar lúgur. Ekki má heldur stafla vörum upp þannig að þær komi í veg fyrir eðlilegt flæði reyksins út úr byggingunni.

Milligólf mega ekki takmarka reyklosunina. Prófun á sjálfvirkum reyklosunarbúnaði tengdum reykskynjara (kerfi) skal fara fram a.m.k. einu sinni á ári um leið og brunaviðvörunarkerfið er prófað enda telst búnaðurinn til tengds búnaðar.

Einnig skal annar reyklosunarbúnaður yfirfarinn.

Athugið: Leita skal álits kunnugra varðandi val á auðbrennanlegum plötum.


Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged | Skrifið athugasemd

Út- og neyðarlýsingar

Leiðbeiningar

Leiðbeinandi útljós og aðrar neyðarlýsingar eru veigamikill þáttur í rýmingu bygginga.

  • Útljós eiga að vera fyrir ofan  útgöngudyr. Stærð og fjöldi fer eftir stærð og notkunarsviði húsnæðis. Staðsetning útljósa miðast við að það sjáist í a.m.k. eitt útljós frá hvaða stað sem er í húsnæði þar sem þeirra er krafist.
  • Útljós eiga að vera sílogandi, en skilti síupplýst. Þetta er gert til að þau séu nægjanlega áberandi. Útljós eru með græn og hvít leiðbeiningarmerki. Ákveðnar reglur gilda um stærð þeirra og lesfjarlægðir.
  • Neyðarlýsingum á að koma fyrir í sölum og flóttaleiðum til að ratljóst verði ef straumur fer af húsnæðinu. Neyðarlýsing á að gefa sem jafnasta birtu.
  • Varastraumgjafi á að duga í a.m.k. eina klukkustund. Eftir 5 sekúndur á að vera komin a.m.k. 50% lýsing og full lýsing eftir 15 sekúndur.
  • Á hættulegum stöðum á neyðarlýsing að vera a.m.k. 15 lúx og með fullan styrk eftir 0,25 sekúndur.
  • Varastraumgjafar geta verið rafhlöður eða varaaflstöðvar sem fara sjálfvirkt í gang við straumrof.

Kröfur um út- og neyðarlýsingu

Út- og neyðarlýsing á að vera í:

  • Kennsluhúsnæði, dagvistun, leikskóla og hliðstætt (fyrir fleiri en 50)
  • Samkomuhús, veitingahús, íþróttasali, mötuneyti o.fl. (fyrir fleiri en 50)
  • Verslanir  (150 m2 eða stærri)
  • Skrifstofur (150 m2 eða stærri)
  • Hótel, sjúkrahús, gististarfsemi almennt (>9 rúmstæði)
  • Bílageymslur ( >99 m2)

Eiginleikar útljósa

utljos

Útljós:

  • Geta verið hvort heldur sem er gegnumlýst eða upplýst
  • Upplýst merki eiga að vera stærri en gegnumlýst

Það fer eftir gerð útljósa hvort hægt er að reikna þau inn í neyðarlýsingu, t.a.m. lýsa díóðuljósin aðeins upp skiltið. Það eru til útljós sem gefa aukna birtu niður og gætu því lýst eitthvað út frá sér (ca. tvo metra).

  • Öll merki skulu vera einsleit að gerð og útliti innan sömu byggingar.
  • 50% eða meira af útmerki skal vera grænt að lit.
  • Allir útgangar sem hægt er nota til flótta eru neyðarútgangar en ekki er gerð krafa um útljós nema í skilgreindum flóttaleiðum.

Eiginleikar útmerkja

Merkin:

  • Útmerki eiga að vera hvít tákn á grænum grunni
  • Rauð tilvísunarmerki vísa á slökkvibúnað, brunaboða eða sambærilegt
  • Upplýsingamerki eiga að vera með bláan grunn (salerni o.fl.)

Neyðarlýsing

Rýmingarleið skal hafa a.m.k. 1 lúx á miðlínu og að lágmarki 0,5 lúx á aðalsvæði sem samsvarar a.m.k. hálfri breidd flóttaleiðar.

  • Birtustig á að vera hærra en 1 lúx við hindranir í flóttaleið.
  • Á opnum svæðum fyrir utan skilgreinda flóttaleið á birtustig að vera að lágmarki 0,5 lúx (panikvarnarljós) á gólfi.Þetta á við um kjarnasvæði þar sem ekki er miðað við síðasta hálfa metrann að veggjum o.s. frv.
  • Jafnleiki má ekki vera hærri en 40:1 í miðlínu flóttaleiðar. Sama á við um panikvarnarljós á opnum svæðum.
  • Vegna glýju þurfa kastarar að vera í a.m.k. 4 m. hæð frá gólfi.
  • Óhreinindi í lofti geta haft áhrif á fjölda lampa.
  • Ef öryggisbúnaður er staðsettur utan skilgreindrar flóttaleiðar á að lýsa hann upp þannig að það séu a.m.k. 5 lúx við gólf.
  • Ástæðan fyrir því að lampar eiga að vera í a.m.k. tveggja metra hæð er sú að þannig valda þeir ekki hættulegum hindrunum og minni hætta er á því að lamparnir verði fyrir hnjaski.
  • Lýsing utandyra má ekki vera minni en rétt fyrir innan útgang.
  • Ef salerni, anddyri og fatahengi eru stærri en 8 m2 eða svæðið nýtt af hreyfihömluðum á að setja upp paníkvarnarljós 0,5 lúx við gólf er nægjanlegt.
  • Í töflu-, rafala-, eftirlits- og vinnsluherbergjum á að vera paníkvarnarljós

Athugið: Í tæknirýmum á að vera panikvarnarljós.

  • Ef flóttaleið er breiðari en tveir metrar þarf að bæta við panikvarnarljósum.
  • Hver stigapallur fyrir sig á að vera með neyðarlýsingu, miðað er við tveggja metra hámarksfjarlægð lampa frá beygjur og hæðabreytingar.

Samkvæmt staðli pr EN 50172 er gert ráð fyrir að neyðarlýsing (anti panic) eigi að vera í sölum eða athafnasvæðum sem eru stærri en 60 m2 eða í minni rýmum ef líkur eru til þess að fólk safnist þar saman við hættuástand (t.d.fyrir innan BO) 0,5 lux

Neyðarlýsingarkerfi

Öll neyðarlýsingarkerfi eiga að hafa dagbók þar sem skráðar eru upplýsingar um fast eftirlit. Dagbókin á alltaf að vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila.

Miðlægur búnaður á að vera í eldtraustu rými.

Skráningarskylt eftirlit

  • Daglegt fyrir miðlæg kerfi
  • Mánaðarlegt á öllum kerfum
  • Árlegt eftirlit á öllum kerfum

Hægt er að koma neyðarlýsingu fyrir í almennri lýsingu en frágangur er á ábyrgð rafverktaka. Öruggara er að nota lampa með innbyggðu rými fyrir rafhlöðu.

Athugið: Út- og neyðarlýsingarlampar skulu vera viðurkenndir af Brunamálastofnun

Leiðbeiningar Ljóstæknifélags Íslands og Brunamálastofnunar um neyðarlýsingu

Ljóstæknifélag Íslands og Brunamálastofnun hafa gefið út leiðbeiningar um neyðarlýsingu, mælt með því að hönnuðir, verktakar og rafvirkjar hafi leiðbeiningarnar til hliðsjónar við störf sín.

Birt undir flokknum Brunavarnir bygginga | Tagged , | Skrifið athugasemd