Til að koma megi í veg fyrir slys af völdum hættulegra efna gilda í aðalatriðum sömu aðferðir og notaðar eru við mat á eldhættu.
- Hefur eiturefnaslys komið upp í fyrirtækinu?
- Er hætta á að eiturefnaslys geti átt sér stað?
- Eru eiturefni geymd í byggingum eða á vinnusvæðum utandyra?
- Eru eiturefni notuð eða geymd í nærlægum fyrirtækjum?
- Hafa opinberir eftirlitsaðilar gert einhverjar athugasemdir?
Vörustæður innan sem utandyra mega ekki vera það stórar að reynst geti erfitt að slökkva í þeim. Sama gildir um söfnunar- og ruslahauga.
Þess ber að gæta að eldur geti ekki borist á milli slíkra stæða eða hauga.
Bruninn hjá Hringrás í Sundahöfn í nóvember 2004 er dæmi um óásættanlegar geymsluaðferðir sem urðu þess valdandi að til víðtækra björgunaraðgerða varð að grípa til að forða fólki frá heilsutjóni. Þá lagði stór hópur lögreglu- slökkviliðs- og björgunarsveitafólks sig í umtalsverða hættu við björgunar- og slökkvistörf.
Töluverð mengun varð af völdum brunans í lofti, á láði og legi.
Slíkar aðstæður verður að forðast.