Brunahólfanir

Tilgangur brunahólfunar

Ef eldur kemur upp í byggingu þá á hönnun og frágangur að tryggja eftirfarandi:

  • Að útbreiðsla elds og reyks innan byggingarinnar sé takmörkuð með viðurkenndum hætti.
  • Að útbreiðsla brunans til mannvirkja í grenndinni sé takmörkuð með viðurkenndum hætti.

Vel búið slökkvilið á að geta slökkt eld í brunahólfi með 60 mínútna brunamótstöðu, áður en hann berst yfir í næstu rými. Skil brunahólfs eru yfirleitt EI60.

Brunahólfunin á að halda í tiltekinn tíma og koma í veg fyrir að eldur, hiti og reykur berist til nærliggjandi brunahólfa. Hurðir og hlerar mega í ýmsum tilvikum vera með allt að helmingi lakari brunamótstöðu eða EI(C)S30 (E(C)S30).

Athugið: Mikilvægt er að brunahólfandi veggur nái upp í ystu þakklæðningu eða gengið sé frá honum á annan viðurkenndan hátt.

ES30 hurðir með vírgleri hafa 30 mínútna brunamótstöðu ef ísetning og annar frágangur er í samræmi við reglur og leiðbeiningar Brunamálastofnunar. Stærð á rúðu úr vírgleri (E30) má ekki vera yfir 1 m. að breidd og 1,5 m. á hæð til að standast brunahólfun. Varmageislun í gegnum vírgler er um 50% minni en í gegnum op. Gler sem kemur að mestu leiti í veg fyrir varmageislun (W) er víða notað þar sem sambrunahætta er til staðar, og í flóttaleiðum.

Brunahólf getur verið afmarkað með hleðslugleri af viðurkenndri gerð.

Brunasamstæða

Brunasamstæða er rými sem getur verið með eitt eða fleiri brunahólf innan síns ramma.

  • Samstæðan á að vera aðskilin frá öðrum samstæðum eða byggingum með a.m.k. REI90 byggingarhlutum og er þá bæði átt við veggi og hæðaskil.
  • Upp við þak eiga veggir á milli sambyggðra húsa að vera með frágangi eldvarnaveggs.
  • Hurðir í brunasamstæðuveggjum eiga að vera a.m.k. EICS60.

Eldvarnaveggir

Eldvarnaveggir (REI-M120) eru veggir sem standa á sjálfstæðum undirstöðum og eiga að standa eftir þó að hús brenni til grunna. Veggirnir eru yfirleitt úr a.m.k. 16 cm. þykkri járnbentri steinsteypu og eiga að ná 30 cm. upp fyrir þök, eða að frá þeim sé gengið á annan viðurkenndan hátt.

  • Eldvarnaveggur á að vera á milli sambyggðra fjölbýlishúsa. Grunnflatarmál á milli eldvarnaveggja má ekki fara yfir 600 m2.
  • Um fjarlægðir í tréverk er fjallað í byggingarreglugerð.
  • Ef op er sett í eldvarnavegg skal gengið frá því á viðurkenndan hátt.
  • Ef bygging stendur nær lóðarmörkum en gefið er upp í reiknireglum byggingarreglugerðar, skal hún hafa eldvarnavegg.
  • Sambyggð hús geta haft sameiginlegan eldvarnavegg á lóðarmörkum.

Fjölbýlishús til viðmiðunar

Í byggingarreglugerð gilda reglur um fjölbýlishús sem lágmarkskröfur fyrir flestar aðrar byggingar með nokkrum undantekningum sem koma fram í sérköflum fyrir mismunandi starfsemi í byggingum.

Ef um lítil atvinnuhúsnæði er að ræða er yfirleitt leyfilegt að miða við kröfur sem gerðar eru til fjölbýlishúsa, er þá yfirleitt miðað við fólksfjölda undir 50, hámarksstærð 150 m2 eða gistirými fyrir 11-20 manns ef samtengdir reykskynjarar eru til staðar.

brunaholf

  • Í fjölbýlishúsum eiga veggir og hæðaskil á milli íbúða að vera að minnsta kosti REI90.
  • Veggir að stigahúsum eiga að vera að minnsta kosti AEI60.
  • Hurðir eiga að vera að minnsta kosti EICS30.
  • Hurð að geymslukjallara á að vera að minnsta kosti EICS60.
  • Innbyggð sorpgeymsla á að vera að minnsta kosti AEI60 og ekki má vera innangengt í sorpgeymslu.
  • Loftun sorprennu á að ná upp úr þaki um rör sem einangra á að minnsta kosti með netull í þakrými. Ef útloftun sorprennu endar í þakrými er hætt við að eldurinn berist þangað, breiðist þar út og jafnvel yfir í næstu þakrými og stigahús ef brunahólfun er léleg á milli húsa.
  • Ónotuðum þakrýmum sem eru meira en 500 m2 á að skipta í brunahólf EI60.
  • Skil að ónotuðu þakrými geta verið með minni brunamótstöðu en önnur hæðaskil, en þó aldrei lakari en REI30.

Þessi atriði eiga jafnframt við um fleiri byggingar.

Kröfur um brunahólfanir

Í byggingarreglugerð eru settar fram kröfur um stærð og gerð brunahólfa.

Kröfurnar eru mismunandi því miðað er við gerð byggingar og þá starfsemi sem í henni á að vera. Á uppdráttum þarf að gera grein fyrir brunavörnum og samþykki byggingarfulltrúa verður að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

Skólar

  • Skólastofa EI60 með EICS30 hurðum
  • 600 m2 hámarksstærð brunasamstæðu sem inniheldur kennsludeild í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1200 m2 hámarksstærð brunasamstæðu sem inniheldur kennsludeild í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 og stærri skulu brunahannaðar

Samkomuhús

  • Samkomusalur skal vera a.m.k. EI60 með a.m.k. EICS30 hurðum
  • 500 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1500 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi,undanþága frá þessu ákvæði er í byggingarreglugerð
  • 2000 m2 eða stærra skal brunahanna

Verslanir

  • 1000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í tveggja hæða húsi
  • 2000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 eða stærri skulu brunahannaðar

Hótel og sambærileg starfsemi

  • Herbergi skal vera sjálfstætt brunahólf a.m.k. EI60 með a.m.k. EICS30 hurðum
  • 600 m2 hámarksstærð brunassamstæðu í tveggja hæða húsi eða hærra
  • 1000 m2 hámarksstærð brunasamstæðu í einnar hæðar húsi
  • 2000 m2 og stærra skal brunahannað
  • Einnig skal brunahanna hús þar sem fólk á erfitt með að bjarga sér sjálft.

Iðnaður

  • Mismunandi brunaáhættur eiga að vera í sjálfstæðu brunahólfi sé bygging stærri en 500 m2
  • 2000 m2 og stærra skal brunahanna

Slökkvilið þurfa að treysta á brunahólfanir til að hafa raunhæfa möguleika á að hefta útbreyðslu elds. Brunahólfanir auka öryggi fólks og draga úr eignatjóni.

Veikleikar brunahólfana

Það er algengt að sjá lélegan frágang í kringum lagnir sem liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta. Í byggingarreglugerð er tekið fram að iðnaðarmenn skulu ganga frá götum eftir að lagnavinnu líkur. Lélegur frágangur í kringum lagnir getur valdið stórtjóni í eldsvoða og gerir slökkviliðsmönnum erfiðara fyrir.

Þar sem loftræsilagnir liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta þarf í vissum tilfellum að koma brunalokum fyrir í þeim eða einangra þær með steinull og klæða með gipsi í þeim rýmum sem loftræsingin þjónar ekki.

Í sumum byggingum eru loftræsikerfi tengd við brunaviðvörunarkerfið sem slekkur á loftræsingu ef reykur berst inn í lagnirnar. Þessi aðgerð getur verið ráðstöfun til úrbóta í byggingum þar sem erfitt er að koma brunalokum fyrir.

Eldur má aldrei ná að dreifa sér.

Rétt brunahólfun getur komið í veg fyrir stórtjón.

Mundu að hver stórbruni byrjar sem lítill.

This entry was posted in Brunavarnir bygginga and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply