Leiðbeiningar
Leiðbeinandi útljós og aðrar neyðarlýsingar eru veigamikill þáttur í rýmingu bygginga.
- Útljós eiga að vera fyrir ofan útgöngudyr. Stærð og fjöldi fer eftir stærð og notkunarsviði húsnæðis. Staðsetning útljósa miðast við að það sjáist í a.m.k. eitt útljós frá hvaða stað sem er í húsnæði þar sem þeirra er krafist.
- Útljós eiga að vera sílogandi, en skilti síupplýst. Þetta er gert til að þau séu nægjanlega áberandi. Útljós eru með græn og hvít leiðbeiningarmerki. Ákveðnar reglur gilda um stærð þeirra og lesfjarlægðir.
- Neyðarlýsingum á að koma fyrir í sölum og flóttaleiðum til að ratljóst verði ef straumur fer af húsnæðinu. Neyðarlýsing á að gefa sem jafnasta birtu.
- Varastraumgjafi á að duga í a.m.k. eina klukkustund. Eftir 5 sekúndur á að vera komin a.m.k. 50% lýsing og full lýsing eftir 15 sekúndur.
- Á hættulegum stöðum á neyðarlýsing að vera a.m.k. 15 lúx og með fullan styrk eftir 0,25 sekúndur.
- Varastraumgjafar geta verið rafhlöður eða varaaflstöðvar sem fara sjálfvirkt í gang við straumrof.
Kröfur um út- og neyðarlýsingu
Út- og neyðarlýsing á að vera í:
- Kennsluhúsnæði, dagvistun, leikskóla og hliðstætt (fyrir fleiri en 50)
- Samkomuhús, veitingahús, íþróttasali, mötuneyti o.fl. (fyrir fleiri en 50)
- Verslanir (150 m2 eða stærri)
- Skrifstofur (150 m2 eða stærri)
- Hótel, sjúkrahús, gististarfsemi almennt (>9 rúmstæði)
- Bílageymslur ( >99 m2)
Eiginleikar útljósa
Útljós:
- Geta verið hvort heldur sem er gegnumlýst eða upplýst
- Upplýst merki eiga að vera stærri en gegnumlýst
Það fer eftir gerð útljósa hvort hægt er að reikna þau inn í neyðarlýsingu, t.a.m. lýsa díóðuljósin aðeins upp skiltið. Það eru til útljós sem gefa aukna birtu niður og gætu því lýst eitthvað út frá sér (ca. tvo metra).
- Öll merki skulu vera einsleit að gerð og útliti innan sömu byggingar.
- 50% eða meira af útmerki skal vera grænt að lit.
- Allir útgangar sem hægt er nota til flótta eru neyðarútgangar en ekki er gerð krafa um útljós nema í skilgreindum flóttaleiðum.
Eiginleikar útmerkja
Merkin:
- Útmerki eiga að vera hvít tákn á grænum grunni
- Rauð tilvísunarmerki vísa á slökkvibúnað, brunaboða eða sambærilegt
- Upplýsingamerki eiga að vera með bláan grunn (salerni o.fl.)
Neyðarlýsing
Rýmingarleið skal hafa a.m.k. 1 lúx á miðlínu og að lágmarki 0,5 lúx á aðalsvæði sem samsvarar a.m.k. hálfri breidd flóttaleiðar.
- Birtustig á að vera hærra en 1 lúx við hindranir í flóttaleið.
- Á opnum svæðum fyrir utan skilgreinda flóttaleið á birtustig að vera að lágmarki 0,5 lúx (panikvarnarljós) á gólfi.Þetta á við um kjarnasvæði þar sem ekki er miðað við síðasta hálfa metrann að veggjum o.s. frv.
- Jafnleiki má ekki vera hærri en 40:1 í miðlínu flóttaleiðar. Sama á við um panikvarnarljós á opnum svæðum.
- Vegna glýju þurfa kastarar að vera í a.m.k. 4 m. hæð frá gólfi.
- Óhreinindi í lofti geta haft áhrif á fjölda lampa.
- Ef öryggisbúnaður er staðsettur utan skilgreindrar flóttaleiðar á að lýsa hann upp þannig að það séu a.m.k. 5 lúx við gólf.
- Ástæðan fyrir því að lampar eiga að vera í a.m.k. tveggja metra hæð er sú að þannig valda þeir ekki hættulegum hindrunum og minni hætta er á því að lamparnir verði fyrir hnjaski.
- Lýsing utandyra má ekki vera minni en rétt fyrir innan útgang.
- Ef salerni, anddyri og fatahengi eru stærri en 8 m2 eða svæðið nýtt af hreyfihömluðum á að setja upp paníkvarnarljós 0,5 lúx við gólf er nægjanlegt.
- Í töflu-, rafala-, eftirlits- og vinnsluherbergjum á að vera paníkvarnarljós
Athugið: Í tæknirýmum á að vera panikvarnarljós.
- Ef flóttaleið er breiðari en tveir metrar þarf að bæta við panikvarnarljósum.
- Hver stigapallur fyrir sig á að vera með neyðarlýsingu, miðað er við tveggja metra hámarksfjarlægð lampa frá beygjur og hæðabreytingar.
Samkvæmt staðli pr EN 50172 er gert ráð fyrir að neyðarlýsing (anti panic) eigi að vera í sölum eða athafnasvæðum sem eru stærri en 60 m2 eða í minni rýmum ef líkur eru til þess að fólk safnist þar saman við hættuástand (t.d.fyrir innan BO) 0,5 lux
Neyðarlýsingarkerfi
Öll neyðarlýsingarkerfi eiga að hafa dagbók þar sem skráðar eru upplýsingar um fast eftirlit. Dagbókin á alltaf að vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila.
Miðlægur búnaður á að vera í eldtraustu rými.
Skráningarskylt eftirlit
- Daglegt fyrir miðlæg kerfi
- Mánaðarlegt á öllum kerfum
- Árlegt eftirlit á öllum kerfum
Hægt er að koma neyðarlýsingu fyrir í almennri lýsingu en frágangur er á ábyrgð rafverktaka. Öruggara er að nota lampa með innbyggðu rými fyrir rafhlöðu.
Athugið: Út- og neyðarlýsingarlampar skulu vera viðurkenndir af Brunamálastofnun
Leiðbeiningar Ljóstæknifélags Íslands og Brunamálastofnunar um neyðarlýsingu
Ljóstæknifélag Íslands og Brunamálastofnun hafa gefið út leiðbeiningar um neyðarlýsingu, mælt með því að hönnuðir, verktakar og rafvirkjar hafi leiðbeiningarnar til hliðsjónar við störf sín.