Geymsla
Sprengiefni, þar með talið skotelda á að geyma í sjálfstæðu brunahólfi.
Ef um verulegt magn er að ræða á geymslan að vera í sjálfstæðri byggingu á lóð og skulu fjarlægðir frá nálægum áhættum vera í samræmi við magn sprengiefnisins.
- Geymslurnar skulu vera sérstaklega hannaðar og byggðar miðað við áhættu og magn sprengiefnis og þannig frá henni gengið að sprengiþrýstingur fari í fyrirfram ákveðna átt.
- Í það minnsta fjölnota, vöktuðu viðvörunarkerfi (reykskynjarar og hreyfiskynjarar) skal komið fyrir í og við geymslurnar, val á kerfum og staðsetning skynjara fer eftir aðstæðum.
- Vélabúnaður má ekki vera í geymslunni og handverkfæri og annar búnaður skal vera neistafrír.
- Eftir atvikum skal vera sprengiheldur eða neistafrír rafbúnaður í rýminu.
- Í rýminu skal vera það geymsluhitastig sem sprengiefninu hentar best.
- Starfsmenn skulu fá viðeigandi fræðslu og þjálfun í meðferð á sprengiefnum.
Athugið: Ávallt skal fara fram áhættumat á geymslum fyrir sprengiefni, þar með talið skotelda.
Sprautuklefar
Sprautuklefar þar sem unnið er með eldfima grunna og lökk, skulu vera sjálfstæð brunahólf. Viðunandi loftræsting beint út á að vera í klefunum. Lampar skulu vera neistafríir og rafmótor loftpressu sprengiþéttur. Ekki má nota gólfefni sem geta myndað neista.
Hleðsla á rafgeymum
Hleðsla á rafdrifnum forklyfturum og sambærilegum tækjum á að fara fram í sérstöku herbergi afmörkuð með EI60 byggingarhlutum og EICS30 hurð. Loftræsa á herbergið á fullnægjandi hátt meðan á hleðslu stendur vegna vetnis sem myndast við hleðslu rafgeyma. Loftræsimótor skal staðsetja utan herbergis og stokks.
Gastæki
Þar sem unnið er með gastæki skal merkja staðsetningu þeirra með gasmerki utandyra.
Gasflöskur á verkstæðum skulu geymdar á vögnum nærri merktum útidyrum.
Gashylki eiga það til að springa í eldsvoða og eru því hættuleg.
Gas og eldfimar gufur
Þar sem unnið er með gas eða efni sem skapa eldfimar gufur, þurfa verkfæri, húsbúnaður og gólfefni að vera úr neistafríum efnum.
F- gas
Það getur orðið sprenging ef til að mynda F- gas lekur út því það þarf ekki nema neista til dæmis frá tengli eða rafmótor til að í því kvikni, verður þá mikil hita- og þrýstingsaukning í rýminu.
Athugið: Það er nauðsynlegt að hafa gasskynjara þar sem gas er geymt/notað.