Hönnun
Loftræstikerfi skal þannig hannað og frá því gengið að það rýri ekki brunahólfun byggingar eða stuðli að reykútbreiðslu við bruna.
- Almennt eiga loftræstiklefar að vera í sjálfstæðu brunahólfi EI60 með hurð EIS30. klæðningar inni í klefanum eiga að vera í flokki eitt.
- Í klefum fyrir mjög stór loftræstikerfi á brunahólfunin að vera EI90.
- Undanþágur eru veittar frá þessu ákvæði ef búnaður og frágangur uppfyllir staðalinn DS 428.
- Loftstokkar sem rjúfa EI90 brunaveggi eiga að vera með EI60 brunaloku í eða þétt upp við vegginn. Brunalokurnar eiga að loka ef hitastig í þeim verður 40°C eða meira. Þannig frágangur kemur ekki í veg fyrir úbreiðslu kaldari reyks.
- Brunamótstaða lagnanna sjálfra á að vera a.m.k. E30, hægt er að ná mismikilli brunamótstöðu með netull eða með brunaþolnum lagnastokkum.
Reyklokur eiga að vera í brunasamstæðuskilum atvinnuhúsnæðis og í skilum brunahólfa í húsnæði með rúmstæðum. Einnig er hægt að reykútlofta lagnirnar upp úr þaki og hafa mótstöðu í brunaskilum.
Það ber að hreinsa loftræstilagnir þegar óhreinindi eru komin yfir eðlileg mörk. Fyrir vanan þjónustuaðila dugir sjónskoðun til að meta ástandið.
Eftirlit með loftræstikerfum
- Kanna hvort bruna- og reyklokur vinni rétt
- Kanna aðgengi að bruna- og reyklokum og hvort við þær séu gaumlúgur
- Prófa virkni hitarofa
- Kanna mótstöður ef stokkakerfið er reykútloftað
- Við skoðun skulu teikningar hafðar til hliðsjónar
- Í handbók loftræstikerfis á að færa inn lýsingar á hreinsun loftstokka og prófun brunaöryggistækja
Heimildir: Leiðbeiningar Brunamálastofnunar, staðallinn DS 428
Eldunarútsog
Mjög slæmt ástand er á eldunarútsogum hérlendis því flest þeirra eru ill- eða óhreinsanleg þar sem þau eru klædd af og ekki vatnsheld. Afar erfitt er og mjög seinlegt að olíuhreinsa loftstokka. Í sumum tilvikum verður að nota þurrís-blástur þegar ekkert annað dugar. Það þarf mikið magn af þurrís og hann er dýr. Í sumum tilfellum getur kostnaður við hreinsun eldunarútsogs verið álíka mikill og stofnkostnaður þess.
Þar sem gott aðgengi er að stokkakerfi og stokkarnir ekki stærri en 30 cm í þvermál getur verið ódýrara að setja nýja stokka í stað þess að hreinsa þá. Farsælast væri að hafa bandarísku NAPA#96 reglugerðina að leiðarljósi við smíði og uppsetningu eldunarútsoga. Þá væri hægt að hreinsa þau með heitu háþrýstivatni án mikils kostnaðar.
- Loftræstistokkarnir þurfa að vera úr 1,25 millimetra þykku járni og án samskeyta (heilsoðnir) því reynslan hefur sýnt að ekkert kítti þolir olíu til lengdar.
- Láréttir stokkar þurfa að vera með vatnshalla að háf.
- Rafmótorinn í blásaranum verður að vera lokaður frá olíumettuðu loftstreyminu.
- Þakblásara verður að vera auðvelt að opna og með vatnsheldri skrúfaðri kló.
- Aðgangslúgur þurfa að vera 60×60 cm að stærð eða eins nærri því og stærð stokksins leyfir. Þær þurfa að vera eldþolnar og þéttingin eld- og olíuþolin.
- Aðgangslúgur þurfa að vera við allar greinar og beygjur. Ekki skal vera lengra bil á milli þeirra en 4 metrar.
Bruna- og fituhreinsun stokka
Brunahreinsun og fituhreinsun þarf að framkvæma með heitum háþrýstivatnsþvotti og uppleysiefnum. Dælan þarf að afkasta um 12 lítrum á mínútu af 98°C heitu vatni við 200 bör. Þar sem stokkar eru ekki vatnsheldir er þurrísblástur eina leiðin til að hreinsa stokkana, en það er dýr aðgerð. Loftsuga er þá tengd við kerfið og þurr-ísperlum, sem eru frosin kolsýra, -79°C, er blásið með miklum þrýstingi á fituna eða olíu-filmuna, sé um brunatjón að ræða. Blásturinn verkar á þrennan hátt. Fyrst frystir kælingin fituna og gerir hana stökka. Höggkrafturinn brýtur síðan fituna upp þegar perl-urnar lenda á yfirborðinu. Að lokum verða fjölmargar smásprengingar sem rífa upp frosna fituna. Þær verða þegar þurrísperlurnar lenda á yfirborði stokksins og auka rúm-mál sitt mörghundruð prósent við það að breytast aftur í kolsýru. Þurrísblástur er frekar seinleg og dýr hreinsiaðferð og nýtist best þar sem engin önnur leið er fær.
Eftirlitsaðferðir
Tvær aðferðir eru til að mæla magn olíu í eldunarútsogum:
- Spaði með missíðum tönnum, 50-800 míkron, er dreginn eftir yfirborðinu og þykkt olíunnar metin eftir því hvaða tennur snertu óhreinindin.
- Rafeinda-dýptarmælir er notaður til að ákvarða þykkt óhreinindanna.
Ekki hafa verið settar reglur um tíðni hreinsana hér á landi, heldur er stuðst við mælingar á þykkt óhreinindanna.
Slökkvikerfi í atvinnueldhús
Til að kom á veg fyrir að eldur berist upp í háfa, og að starfsfólk verði fyrir alvarlegum meiðslum við að reyna að slökkva eld í feitispottum, hafa æ fleirri atvinnueldhús komið sér upp sjálfvirku slökkvikerfi fyrir ofan eldunartækin. Með tilkomu kerfanna er í mörgum tilfellum hægt að draga úr kröfum um brunahólfanir á milli eldhúss og annara rýma. Reynslan hefur kennt mönnum að það er afar erfitt og reyndar nær ómögulegt að slökkva í t.a.m. djúpsteikingarpottum með handslökkvibúnaði hvað þá að slökkva í lagnastokkum frá eldunarháfum.
Heimildir: Bogi Jónsson verkefnisstjóri hjá ÍSS Ísland ehf