Almennt um gas og gashylki
Mikil aukning hefur orðið á gasnotkun, sérstaklega í atvinnueldhúsum og í heimahúsum.
Gasgrill má víða sjá innandyra, bæði í íbúðar- og atvinnuhúsnæði að vetrarlagi, sem er í sjálfu sér allt í lagi ef gashylkin eru geymd utandyra, ef hylkin eru geymd úti á svölum verður að tryggja það að gasleki komist ekki í niðurföll, þetta gæti gerst ef skrúfað er frá hylkinu. Verður því að skrúfa vandlega fyrir og koma hettu fyrir yfir lokann eða pakka hylkinu inn í t.d. plastdúk.
Gaseldavélar eru orðnar algengar í heimahúsum. 11 kg. hylkin (gulu) eru yfirleitt staðsett í neðri skáp nærri eldavél í eldhúsi. Til að uppgötva gasleka verður að koma gasskynjara fyrir, til dæmis á sökkli innréttingar fyrir neðan skápinn.
Gashylki skulu ávallt staðsett þannig að gas, sem lekur út, safnist ekki fyrir og valdi eld- og/eða sprengihættu Við staðsetningu þarf einnig að taka mið af því að sem minnst hætta sé á að eldur berist í hylkin við eldsvoða.
Gashylki sem notuð eru í tengslum við atvinnustarfemi eru yfirleitt ekki með öryggisventil og því mjög hættuleg ef þau hitna mikið (springa). því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys af þeirri ástæðu.
F-gas
F- gas er að jafnaði blanda af própani og bútani, en einnig getur verið um nánast hreint própan að ræða. Eðlismassi þess er um 1,6 – 2 sinnum meiri en andrúmslofts. Þar sem það er litlaust og lyktarlaust er ætíð blandað í það sterku lyktarrefni. F- gas er eld og sprengifimt.
Staðsetning hylkjanna
Gashylki skulu standa upprétt á stöðugu, láréttu undirlagi, þannig skal frá þeim gengið að þau velti ekki. Tóm gashylki mega liggja á hliðinni. Gashylki má ekki stasetja í flóttaleið, ekki heldur í kjallara með gólf undir yfirborði jarðar nema gerðar séu viðeigandi öryggisráðstafanir, eins og gasskynjari og vélræn loftræsing.
Sé F-gas geymt í skáp utandyra skal fjarlægð þess frá opum, til dæmis gluggum, vera nægjanleg. Ef gasmagn er 40 – 200 kg. skal veggur á milli skáps og húss vera a.m.k. EI90. Veggurinn skal ná s.m.k. 1 m. út fyrir gashylkin. Sé ekki mögulegt að koma skáp fyrir utandyra, verður að útbúa sérstakt rými fyrir hylkin, til að mynda eldtraustan skáp við útvegg. Brunamótstaða skápsins skal vera að minnsta kosti EI60, skápinn á að loftræsa nægjanlega beint út bæði að ofan og neðan.
- Ekki á að geyma gashylki innandyra í atvinnueldhúsum.
- Ávallt skal merkja staðsetningu gashylkja í atvinnuhúsnæði með gasmerki.
- Reykingar bannaðar skal komið fyrir bæði innan og utan á hurð forðageymslu.
Gasskynjarar og neyðarrofar
Ef gashylki eru staðsettar innandyra, og þar sem unnið er með gastæki innandyra, skal gasskynjara komið fyrir við gólf rýmis. Ef um stór gaskerfi er að ræða, skal koma segulloka fyrir framarlega á kerfinu. Jafnframt skal neyðarrofa komið fyrir á aðgengilegum stað. Neyðarrofi á að vera í öllum atvinnueldhúsum sem nota gas til eldunar, og eftir atvikum þar sem annar viðkvæmur atvinnurekstur fer fram.
Leyfilegt magn í atvinnuhúsnæði
Í atvinnuhúsnæði má geyma allt að 200 kg. í hylkjum án þess að sækja þurfi um leyfi til slökkviliðsstjóra, enda séu gerðar varúðarráðstafanir í samræmi við reglugerð um forðageymslur fyrir F-Gas. Tilkynna skal slökkviliðsstjóra um allt F- gas umfram 11 kg. í atvinnuhúsnæði. Tilkynna á slökkviliðsstjóra um hylki sem tengd eru saman í miðstöð.
Merkja á staðsetningu gashylkja og gastækja með gasmerki utandyra og eftir atvikum einnig innandyra, t.a.m. gasskáp. Það skal gert með viðurkenndu varúðarmerki.
Gaslagnir
Leyfi byggingarfulltrúa þarf fyrir gaslögnum í atvinnuhúsnæði (uppdrættir).
Viðurkenndan fagaðila skal fá til að leggja gaslagnir og hafa eftirlit með þeim.
Suðugas
- Þar sem unnið er með gastæki skal merkja staðsetningu þeirra með gasmerki utandyra.
- Gasflöskur á verkstæðum skulu geymdar á vögnum nærri útidyrum.
- Gashylki eiga það til að springa í eldsvoða og eru því hættuleg.
Athugið: Vegna slysahættu eiga allir sem vinna með gastæki að æfa viðbragðsáætlun.
Viðbrögð við gasleka
- Viðvörun, gaslykt
- Varið fólk við hættunni
- Skrúfið fyrir gastæki ef þið getið
- Sláið út rafmagni
- Varist neistamyndun
- Loftið út
- Byrgið niðurföll í gólfum
- Tilkynnið til 112
- Látið þjónustuaðila vita
Athugið: Forðið ykkur frekar en að ganga inn í gasský.
Ef eldur hefur komið upp
- Varið fólk við hættunni.
- Látið 112 vita.
- Skrúfið fyrir gasstreymi.
- Ekki slökkva loga á gastækjum
- Notið brunaslöngu/vatnstæki til að kæla gasflöskur sem hitna.
- Notið handslökkvitæki til að slökkva minniháttar bruna.
Athugið: Tryggið ykkur flóttaleið.
Ávallt skal fá fagmann til uppsetningar á gaslögnum og gasbúnaði.
Semja skal við viðurkenndan þjónustuaðila um eftirlit og viðhald.
Geymsla á hylkjum innandyra
Það er fremur lítið um að gasgrill séu notuð yfir veturinn. Til að koma í veg fyrir uppsöfnun á hylkjum í geymslukjöllurum, bílskúrum og víðar, þá er hægt gegn skilagjaldi að losa sig við hylkin til viðkomandi söluaðila, ný hylki eru síðan fengin að vori.
Ef gashylki (aðeins eitt er leyfilegt) er staðsett í eldhúsinnréttingu, skal koma því fyrir í neðri skáp, einum metra frá eldavél. Gasskynjara verður að koma fyrir á sökkli innréttingarinnar, sem næst gólfi, fyrir neðan skápinn.
Fáið fagmann til að koma lögnum og tækjabúnaði fyrir.
Kynnið ykkur hvernig á að bregðast við gasleka.