Handslökkvibúnaður

slokkvitaeki

Staðsetning

Handslökkvitæki á að hengja á vegg á áberandi eða merktum stað, stærð tækja og tegund slökkviefnis fer eftir áhættu. t.a.m. ætti kolsýrutæki (CO2) að vera staðsett nærri rafmagnstöflu og öflugum raftækjum en almenna reglan er að handslökkvitæki séu staðsett nærri útgöngudyrum og við brunaslöngur. Eldvanateppi eiga að vera í eða nærri eldhúsum og þar sem unnið er með eldfim efni. Eldvarnateppi má nota að breiða yfir hluti sem kviknað hefur í, til að hefta útbreiðslu elds, t.a.m. frá kertaskreytingu eða sjónvarpi. Til að slökkva glóð í föstum efnum þarf að nota vatn.

Fyrstu viðbrögð

Fyrstu viðbrögð í eldsvoða skulu ávallt vera þau að vara fólk við eldinum, samtímis skal láta 112 vita.

Algengasti slökkvibúnaður:

  • Duft
  • vatn
  • létvatn
  • kolsýra
  • eldvarnateppi
  • brunaslöngur

Slökkvigildi

Slökkvigildi handslökkvitækis á að standa á tækinu. Brunaflokkurinn er sýndur með bókstaf en stærð bruna í slökkvieiningum með tölustaf.

  • A er bruni í föstum, yfirleitt lífrænum efnum, þar sem bruni myndar oftast glóð.
  • B er bruni í vökvum eða föstu efni sem bráðnar.
  • C er bruni í gasi
  • D er bruni í málmum

Forsendur bruna

Þrennt þarf að vera til staðar til að bruni geti átt sér stað:

  • brennanlegt efni
  • súrefni
  • nægjanlegur hiti

Slökkvitækni

Slökkvitækni byggist á því að fjarlæga einn eða fleirri þessara þátta.

Þetta er gert með því að;

  • fjarlægja eða koma í veg fyrir aðstreymi brennanlegs efnis
  • koma í veg fyrir aðstreymi súrefnis
  • kæla eldsneytið niður fyrir íkveikjuhitastig

Notkun slökkvitækis

Byrjað er á að fjarlægja innsigli (sjá leiðbeiningar á tækinu).

Ágæt regla er að hefja slökkvistarf í um þriggja metra fjarlægð frá eldinum, það getur til að mynda komið í veg fyrir dreifingu á logandi vökva. Að öðru leiti á að fara eftir leiðbeiningum á tækinu. Beina skal slökkviefninu að rótum eldsins og færa sig síðan nær ef kostur er. Ef næst að slökkva eldinn áður en efnið klárast, þá á að geyma restina af slökkviefninu til öryggis, ef eldurinn skyldi kvikna á ný.

Athugið: Munið eftir að slökkva glæður í föstum efnum (timbur o.fl.) með vatni.

Val á slökkvitækjum

Það fer eftir áhættu; stærð rýmis og starfsemi hvaða tegund og stærð slökkvitækis á að velja. Þegar valin eru stór slökkvitæki er ráðlegt að koma fyrir viðbótartækjum með lágu slökkvigildi gegn minni brunum.

Mismunandi eiginleikar slökkvitækja gera að verkum að ein tegund tækja hentar yfirleitt betur en önnur við tilteknar aðstæður.

Þar sem froðu- og dufttæki eru á sama stað verður að gæta þess að þau séu samhæfð, það er að þau myndi ekki óvirk efnasambönd sín í milli.

Seljendur tækjanna eiga að leiðbeina kaupendum varðandi þessi atriði.

Viðhald og eftirlit með handslökkvibúnaði

Sjá rit Brunamálastofnunar: “Reglur um eftirlit og viðhald handslökkvitækja“.

Viðurkenndur þjónustuaðili á að yfirfara tækin árlega.

Mánaðarlegt eftirlit

Við mánaðarlegt eftirlit á eigandi/umráðamaður að líta eftir því að:

  • Slökkvitækin séu á sínum stað
  • Innsigli séu órofin
  • Þrýstimælar sýni réttan þrýsting (grænt svæði)
  • Aðgangur að tækjunum sé óheftur
  • Merkingar séu til staðar og óskaddaðar

Slöngukefli

Slöngukefli er brunaslanga upprúlluð á kefli sem hengt er á vegg.

Í 164. gr. byggingarreglugerðar er kveðið á um vatnsrennsli, þrýsting o.fl.

Reglugerð um brunaslöngur

Í byggingarreglugerð er þess krafist að brunaslöngur séu í:

  • fjölbýlishúsum fyrir aldraða
  • skólum og dagvistunarstofnunum fyrir fleir en 50 manns
  • samkomuhúsum fyrir fleiri en 150 manns
  • við leiksvið stærri en 100 m2
  • verslunarhúsnæði stærra en 500 m2
  • skrifstofuhúsnæði stærra en 500 m2
  • hótel dvalar- og heimavistir meira en 20 svefnrými
  • iðnaðarhús stærri en 200 m2
  • bílageymslum stærri en 100 m2

Þjálfun í notkun handslökkvitækja

Þjálfað fólk á ekki að vera í vandræðum með að slökkva eld á byrjunarstigi. Á hinn bóginn geta slökkvitæki skapað falskt öryggi ef óþjálfað fólk á að nota þau.

  • Kennsla af þessu tagi er veitt á vegum flestra slökkviliða.
  • Á höfuðborgarsvæðinu býður LSOS upp á þjálfun og kennslu.
  • Hjá Eldstoðum starfa reyndir slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitsmenn sem annast slíka fræðslu. 
This entry was posted in Brunavarnir bygginga and tagged . Bookmark the permalink.

Leave a Reply