Flóttaleiðir skulu vera greiðfærar
Flóttaleiðir eiga að vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar. Þær eiga að tryggja það að fólk sem statt er í mannvirki, hafi nægan tíma til að koma sér út undir bert loft áður aðstæður verða hættulegar.
Útreikningar á leyfilegum fólksfjölda fer eftir notkun húsnæðis.
- Í samkomusölum er t.a.m. reiknað með tveimur á fermetra og í verslunum einum á hverja þrjá fermetra.
- Í brunahólfum allt að 150 m2 sem rúma innan við 50 manns gilda aðrar reglur en fyrir stærri og/eða fjölmennari rými.
- Ekki er leyfilegt að nota flóttaleiðir til annars en umferðar. Þó má innrétta ganga til notkunar sem ekki eykur brunaálag að marki eða rýrir hæfni þeirra.
- Flóttaleið má ekki liggja í gegnum aðra rekstrareiningu eða íbúð.
- Rúllustigar og færibönd eru ekki flóttaleiðir.
- Lyftur á ekki að nota til flótta úr eldsvoða, merkingar þar að lútandi skulu vera við lyftudyr.
Athugið: Bannað að nota lyftu í eldsvoða.
- Í flóttaleiðum eiga klæðningar veggja og lofta að vera í flokki eitt (t.d. gips).
- Gólfefni í flóttaleiðum eiga að vera tregbrennanleg og því í flokki G.
- Fjarlægð að öruggum flóttaleiðum innan byggingar eða dyrum í útvegg má ekki vera meiri en 25 metrar.
Dyr og hurðir í flóttaleiðum
Reglur kveða á um fjölda útganga, hámarks fjarlægðir að þeim, fyrirkomulag þeirra miðað við fólksfjölda og samanlagða breidd þeirra.
- Breidd útganga á að vera í það minnsta 10 cm á hvern mann sem hún á að þjóna.
- Brunahólf sem reiknað er fyrir fleiri en 600 á að hafa minnst þrjá útganga og brunahólf fyrir fleiri en 1000 minnst fjóra.
- Dyr í flóttaleið eiga að vera fyrir a.m.k. 90 cm breiðar hurðir.
- Hurðir eiga að opnast innanfrá án lykils eða sérstakra verkfæra, þar sem margir dvelja eða koma saman eiga þær að opnast í flóttaáttina.
- Á vængjahurðum frá rýmum sem rúma 50 manns eða fleiri og gerð er krafa um snögga rýmingu, á að vera neyðaropnunarbúnaður (t.d. panikslá).
- Að minnsta kosti tvennar 0,8 m. breiðar dyr eiga að vera til flótta fyrir búfé út úr gripahúsum.
Athugið: Véldrifnar hurðir og rennihurðir má ekki nota í flóttaleiðum nema á þeim sé búnaður sem opni þær við straumrof og við boð frá reykskynjara, eða þær séu opnanlegar með handafli í flóttaáttina. Hverfihurðir og álíka hurðir má ekki nota í flóttaleiðum.
Björgunarop
Í það minnsta eitt björgunarop á að vera fyrir hvern tug manna. Þeim má þó sleppa ef tveir óháðir útgangar til öruggs staðar utandyra eru út úr brunahólfi.
Björgunarop geta verið dyr, gluggar eða hlerar. Björgunaropum á að vera auðvelt að ljúka upp, á þeim skal vera öryggisbúnaður sem á að hindra að lítil börn geti opnað þau.
Það fer eftir gerð og notkun byggingar hvort eða hvaða kröfur eru gerðar varðandi björgunarbúnað við björgunaropin, það geta verið neyðarsvalir, neyðarstigar eða annar viðurkenndur búnaður.
- Þar sem í það minnsta tvær viðurkenndar flóttaleiðir eru til staðar eru björgunaropin oftast nægjanlega stórir (til dæmis 70×80 cm.) opnanlegir gluggar án björgunarbúnaðar.
- Ávallt skal vera greiður aðgangur að dyrum í flóttaleiðum.
- Yfirfara skal opnunarbúnað hurða reglulega og prófa þær enn oftar.
- Utan við dyr flóttaleiða kunna að vera hindranir sem þarf að fjarlægja, til dæmis snjór.
Athugið að vörur sem raðað er meðfram flóttaleiðum (til dæmis verslanir) verða að vera í öruggum rekkum svo þær valdi ekki hindrun í flóttaleið við hrun.
Reglugerð
Gr. 137.1 byggingarreglugerðar
Verði Eldur laus í mannvirki:
a) “Að þeir sem í mannvirkinu dveljast eða eru staddir þar komist fljótt og hindrunarlaust út af eigin rammleik eða með aðstoð annarra.”
b) “Að öll húsaskipan og aðgengi fyrir björgunarmenn sé með þeim hætti að aðstaða til björgunar sé sem auðveldust, hvort sem er á mönnum, dýrum eða verðmætum.”