Prófanir, eftirlit og viðhald
Samning á að gera við viðurkenndan þjónustuaðila um reglulegar prófanir, eftirlit og viðhald á brunaviðvörunarkerfum og tengdum búnaði.
Í gr. 92.3. í byggingarreglugerð segir að reykskynjari og handslökkvitæki eiga að vera í öllum íbúðum, gildir þetta ákvæði þá einnig um fyrirtæki. Þannig á fólk að hafa rýmri tíma til að forða sér út eða slökkva eld á byrjunarstigi.
Í gistiheimilum með svefnrými fyrir allt að 10 manns eiga að vera a.m.k. heimilisskynjarar, fyrir 11-20 manns samtengdir reykskynjarar.
Rafhlöðuskynjara skal prófa vikulega og skipta um rafhlöðu ef með þarf, og eigi sjaldnar en á eins árs fresti.
Það verður æ algengar að brunaviðvörunarkerfin stjórni slökkvikerfum, reyktjöldum, loki brunahólfandi hurðum, opni reyklúgur, slökkvi á loftræsikerfum og ræsi reykblásara (reyksugur). Í sumum byggingum kveikja þau á raddstýrðum skilaboðum og leiðbeiningum.
Í gripahúsum ætti að vera reyksogskerfi að minnsta kosti í flokki C. Kerfið yrði tengt þannig að það hringi í síma þess sem sér um umhirðu skepnanna hverju sinni. Með því móti yrði hægt að grípa tímanlega til rýmingu gripahúsa og jafnvel slökkva eld á byrjunarstigi.
Stjórnstöð
Við stjórnstöð brunaviðvörunarkerfis á að koma fyrir þjónustubók og yfirlitsmynd af byggingunni.
Í þjónustubókina á að skrá reglubundið eftirlit, þar sem skráð er og staðfest með undirskrift hvenær kerfið og tengdur búnaður var yfirfarinn. Einnig á að skrá þar öll boð sem kerfið sendir frá sér, hvort heldur um er að ræða eldboð eða bilun í kerfinu. Ekki má endurstilla kerfið fyrr en reykskynjarinn sem boðin sendi er fundinn.
Ef einangra (aftengja) þarf reykskynjara af einhverjum ástæðum, t.a.m. meðan lagfæringar á húsnæði standa yfir, skal ávallt tengja hann aftur að loknum vinnudegi. Þetta skal gert í samráði við vaktstöð.
Skylda
Skylt er að hafa viðurkennd vöktuð brunaviðvörunarkerfi í:
- Fjölbýlishúsum sem sérstasklega eru ætluð öldruðum
- Skólum og dagvistarstofnunum sem hýsa meira en 50 manns
- Samkomuhúsum fyrir fleiri en 50 manns
- Verslunarhúsnæði þar sem brunasamstæða er stærri en 1000 m2
- Hótelum, dvalar- og heimavistum þar sem 20 eða fleiri gista
- Iðnaðar- og geymsluhúsum þar sem brunasamstæða er stærri en 1000 m2
- Einnig geta sérstakar aðstæður eða áhættur valdið því að brunaviðvörunarkerfis sé krafist.